Íslensk heimili skulda mun meira

15% íslenskra heimila áttu íbúð sína skuldlaust árið 2015, en …
15% íslenskra heimila áttu íbúð sína skuldlaust árið 2015, en í Evrópusambandinu var þetta hlutfall þrefalt hærra eða um 43%. mbl.is/Ómar Óskarsson

Algengara er að heimili skuldi í íbúð sinni hér á landi en í helstu nágrannalöndum okkar. Í nágrannalöndunum er ýmist algengara að heimili séu á leigumarkaði eða eigi íbúð sína skuldlaust heldur en hér á landi.

Árið 2015 voru 63% íslenskra heimila í eigin íbúð með áhvílandi húsnæðisláni, en í Evrópusambandinu skulduðu mun færri í þeirri íbúð sem þeir búa í, eða um 26% heimila. 15% íslenskra heimila áttu íbúð sína skuldlaust árið 2015, en í Evrópusambandinu var þetta hlutfall þrefalt hærra eða um 43%. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs í mars.

Ásett verð íbúða fer hækkandi

Ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. það verð sem kemur fram í auglýsingum, hækkaði um 1,0% í janúar sem er meiri hækkun heldur en mánuðina á undan. Ásett verð íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 2% í janúar.

Vísitala íbúðaverðs hefur almennt farið hækkandi í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, launavísitölu og byggingavísitölu undanfarinn aldarfjórðung. Íbúðaverð lækkaði þó talsvert í hlutfalli við þessar stærðir í kjölfar hrunsins. Sú þróun hefur hins vegar snúist við og nú er svo komið að íbúðaverð hefur aldrei mælst hærra í hlutfalli við vísitölu neysluverðs en í janúar. Í mánaðarskýrslunni er farið ítarlega yfir mögulegar ástæður þessarar langtímaþróunar en skýrslan verður kynnt nánar í dag.

Á meðal stærstu sveitarfélaga landsins eru hlutfallslega flestar íbúðir í útleigu í Reykjanesbæ og Akureyri ef miðað er við þinglýsta leigusamninga. Reykjavík er nálægt landsmeðaltali hvað varðar hlutfall þinglýstra samninga af heildaríbúðafjölda. Í Garðabæ, Hornafirði og Snæfellsbæ er leigumarkaðurinn óvirkastur á þennan mælikvarða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka