„Þessu máli er auðvitað ekkert lokið“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir vissulega vonbrigði að vantrauststillagan hafi …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir vissulega vonbrigði að vantrauststillagan hafi verið felld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Að sjálfsögðu eru þetta vonbrigði vegna þess að við töldum þetta nauðsynlegt skref til að endurreisa traust á dómsmálum í landinu.“ Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is eftir að vantrauststillaga Samfylkingar og Pírata í garð dómsmálaráðherra var felld í kvöld með 29 atkvæðum gegn 33.

„Þessu máli er auðvitað ekkert lokið,“ segir Logi en kveðst þó vera raunsær maður og hafi verið meðvitaður um að þetta yrði mögulega niðurstaðan. „Það sem vakti þó athygli er að atkvæði falla ekki eftir flokkslínum. Það eru merkileg tíðindi, sem sýnir að samviska einstakra þingmanna hefur fengið að ráða töluverðu þarna líka.“

Sjálfur kveðst hann líka vera sannfærður um að stuðningur við að það verði skipaður nýr dómsmálaráðherra sé mun víðtækari en atkvæðagreiðslan hafi gefið til kynna. „Málatilbúnaður VG var dálítið á þá leið að þau væru að verja ríkisstjórnina falli, en þetta snerist auðvitað ekkert um vantraust á ríkisstjórnina heldur um vantraust á einstakan ráðherra.“

Vandræðagangur dómstigsins ekki endilega úr sögunni

Spurður hvort framhald verði á segir Logi þingmennina virða lýðræðislega niðurstöðu. „Auðvitað getur þó vel verið að vandræðagangur dómstigsins sé ekki úr sögunni,“ segir hann og kveður mögulega eiga eftir að renna upp ljós fyrir stjórnarliðum einn daginn um að nýjan dómsmálaráðherra þurfi, ef endurreisa eigi traustið.

„Það er mikil óvissa um það hvernig þessi mál fara,“ segir Logi. „Jafnvel þó að Hæstiréttur staðfesti úrskurð Landsréttar þá munu mál hugsanlega fara til Evrópudómstóls.“ Tvö nýleg dæmi séu um að dómarar hafi verið metnir vanhæfir í ákveðnum málum og dómar ógiltir. „Það væri hrikalegt ef það yrði niðurstaðan eftir 2-3 ár. Það mun hafa svo mikil áhrif á almenning í landinu og alla þá sem fá þar dæmt í sínum málum.“

Þurfum dómsmálaráðherra sem er hafinn yfir vafa

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni í kvöld að réttaróvissunni yrði ekki eytt með vantrauststillögu Samfylkingar og Pírata og að hún þjónaði ekki þeim hagsmunum  réttarins.

Sagði Logi Katrínu vera að drepa málum á dreif með orðum sínum. „Það er alveg rétt að þó að það komi nýr dómsmálaráðherra, þá mun það ekki breyta neinu um það að málin munu þurfa að klárast með einhverjum hætti. Það gengur hins vegar ekki að endurreisa tiltrú á dómsmálum, ef sá sem með ólöglegum embættisfærslum orsakar vandræðaganginn sem nú er, situr áfram.“

Við veikindum þýði ekki að ráðast á sjúkdómseinkennin, heldur verði að ráðast á sjúkdóminn sjálfan. „Þá meina ég að við þurfum að ráðast að rótum þess sem skapar vantraustið og í þessu tilfelli þá þurfum við dómsmálaráðherra sem er hafinn yfir vafa og sem nýtur almenns trausts, en það gerir hún ekki samkvæmt skoðanakönnunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert