Vantrauststillagan gegn ráðherra felld

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, var meðal þeirra sem studdi …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, var meðal þeirra sem studdi vantrauststillöguna. mbl.is/​Hari

Vantrauststillaga Samfylkingar og Pírata gegn Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra sem tekin var til umræðu á Alþingi nú síðdegis var felld á áttunda tímanum í kvöld.

Atkvæði féllu þannig að 29 þingmenn samþykktu tillöguna og 33 voru á móti. Einn þingmaður sat hjá. Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson, þingmenn VG, studdu tillöguna og gerðu þau bæði grein fyrir atkvæði sínu líkt og margir þeirra þingmanna sem studdu tillöguna.

 „Í stað þess að gleðjast yfir þeim tímamótum um stofnun Landsréttar þá hafa þau verið sveipuð tortryggni og vantrausti,“ sagði Rósa Björk er hún gerði grein fyrir sínu atkvæði.

Andrés Ingi sagði stöðu Landsréttar vera eina ástæðu þess að hann hefði ekki stutt stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins eftir síðustu kosningar. „Mér þótti málið slæmt í nóvember, en síðan hefur það stöðug versnað,“ sagði Andrés Ingi. Vinnubrögðin sæmi ekki ráðherra. „Mín afstaða er einföld,“ bætti hann við og kvaðst ekki styðja tillöguna.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, sagðist ekki greiða atkvæði um tillöguna. Hann teldi ríkisstjórnina vonda en að lagalegar hliðar dómaraskipanar væru þó þess eðlis að hann styddi ekki tillöguna. 

Nokkur hiti var í þeim þingmönnum sem tjáðu sig um atkvæðagreiðsluna. 

„Ég bjóst ekkert við sérstakri auðmýkt frá hæstvirtum dómsmálaráðherra, en hafði ekki hugmyndaflug í að þingheimur sæti undir hótunum,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, er hún gerði grein fyrir atkvæði sínu. Ljósi hafi verið varpað á ákveðin atriði í samskiptum ráðherra, sem hafi brugðist trausti Alþingis.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði það hryggja sig að fleiri stjórnarliðar gerðu ekki grein fyrri atkvæði sínu. „Að þeir greini ekki frá því hvers vegna þeir treysti þessum ráðherra,“ sagði Þórhildur Sunna og hvatti þá til að setja dómsmálaráðherra af og skipa annan í hennar stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka