Daginn áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar leið undir lok sendi formaður kjararáðs, Jónas Þór Guðmundsson, bréf til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og óskaði eftir launahækkun fyrir þá sem sæti áttu í ráðinu.
Fallist var á hækkunina bréfleiðis sex dögum eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum en þá hafði Bjarni Benediktsson tekið við sem fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans en byggt er á gögnum sem fréttavefurinn hefur undir höndum en samkvæmt lögum ákveður ráðherra laun þeirra sem sæti eiga í kjararáði.
Jónas fór fram á 7,3% launahækkun sem yrði afturvirk til 1. ágúst 2017 með þeim rökum að laun kjararáðs hefðu ekki hækkað frá því sumarið 2016 en mánaðarleg launavísitala Hagstofu Íslands hefði hækkað um þessa prósentutölu frá síðustu hækkun þeirra.