Hrósaði Sigmundi fyrir framgöngu hans

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég vil bara segja hér að ég tel að háttvirtur þingmaður hafi staðið sig vel í þessum málum þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. Ég tel raunar að fyrri ríkisstjórn hafi gert það líka. Ég tel að allt frá 2009 hafi setið ríkisstjórnir sem hafa haft hagsmuni almennings að leiðarljósi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisrtáðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um Arion banka en málshefjandi var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Katrín sagði ennfremur að þeir samningar sem gerðir hefðu verið, bæði hluthafasamkomulag árið 2009 og stöðugleikasamningar á árunum 2015 og 2016, hafi reynst ríkissjóði hagfelldir. Sigmundur gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega fyrir söluna á 13% hlut ríkisins í Arion banka og sakaði hana og þær ríkisstjórnir sem setið hefðu síðan hann lét af embætti forsætisráðherra um að gefa eftir gagnvart erlendum vogunarsjóðum og fylgja ekki staðfastlega eftir því fyrirkomulagi sem lagt hafi verið upp með af ríkisstjórn hans á sínum tíma.

„Velkomnir aftur til 2009“

„Vinstri stjórnin afhenti vogunarsjóðum bankana, stjórnin sem tók við endurheimti þá vegna almannahagsmuna, en nú hefur dæmið snúist við aftur. Nú þegar vogunarsjóðirnir draga svo upp samkomulag frá fyrsta ári vinstri stjórnarinnar, samkomulag sem þeir höfðu ekki staðið við, hvert er þá svar stjórnvalda? Gaman að sjá ykkur, velkomnir aftur til 2009,“ sagði Sigmundur ennfremur. Málið snerist um gríðarlega hagsmuni ríkisins annars vegar og um aðila hins vegar sem stefnt hefðu að því að hagnast gríðarlega á bankahruninu.

Þótt málefni fjármálakerfisins séu búin að vera stærsta viðfangsefni stjórnmálanna í áratug er ríkisstjórnin algjörlega stefnulaus í málaflokknum. Það á víst að skrifa hvítbók. Hún á að birtast einhvern tímann seinna og þá á að byrja að spá í málið. Yfirleitt er hvítbók skrifuð í nafni ráðherra en nú á hópur fólks að vinna að því á kvöldin og um helgar að undirbúa að stjórnin geti byrjað að móta sér stefnu. Á meðan taka vogunarsjóðirnir völdin með velþóknun og jafnvel hjálp stjórnvalda,“ sagði Sigmundur ennfremur.

Ávöxtunin frá 2009 „ansi hreint góð“

Katrín sagði að ávöxtunin af hluthafasamkomulaginu 2009 væri „ansi hreint góð og ef við berum saman við það sem íslenska ríkið setti inn við endurreisn Arion banka miðað við það sem önnur evrópsk ríki settu inn í fjármálakerfið á sama tíma, á þessum krepputíma, er þetta góð ávöxtun, tæplega 11% ávöxtun ríkisins á ári frá árinu 2009. Ég myndi því segja að sú ríkisstjórn sem þá sat hafi hagað sér skynsamlega og gert rétt í því að verja hagsmuni almennings.

Varðandi Arion banka hefði hugsanlega verið hægt að fara aðra leið á sínum tíma. Sigmundi hefði verið í lófa lagt þegar hann hafi verið forsætisráðherra að taka yfir Arion banka með sama hætti og Íslandsbanka en ákveðið hefði verið að gera það ekki. Forkaupsréttur ríkisins hafi ekki virkjast í tengslum við söluna á bankanum eins og margoft hefði verið bent á. Mikið hafi verið rætt um arðgreiðslur úr Arion banka sem hægt yrði að tæma út úr honum en afkomuskiptasamningurinn sem ríkisstjórn Sigmudnar hefði gert tryggði að ríkið fengi sinn hlut úr þeim arðgreiðslum líka fyrir utan söluverðið af 13% hlut ríkisins.

Ég hefði haldið að hér hefði verið vel haldið á málum og allt lítur út fyrir að ríkið geti fengið allt að 150 milljarða út úr því framlagi sem ríkið setti á sínum tíma, árið 2009, í gegnum hluthafasamkomulagið. Ég hefði haldið að við háttvirtur þingmaður ættum að samfagna hér góðum árangri ríkisstjórna í gegnum tíðina í því að tryggja hag almennings í endurreisn fjármálakerfisins.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert