Í dag alast börn og unglingar upp umkringd snjalltækjum sem skilja talað mál. Þau geta spurt snjallsímann sinn, eða snjallhátalarann á heimilinu, hvers kyns spurninga og gefið þeim fyrirmæli um að gera allt frá því að spila uppáhaldstónlistina yfir í að panta pítsu.
Fyrr á árinu fjallaði breska dagblaðið Telegraph um að hætta gæti verið á að snjalltækin kölluðu fram óviðeigandi hegðun hjá börnum, því Siri og Alexa gera eins og þeim er sagt, hvort sem beðið er fallega eða ekki. Óttast sérfræðingar að ef börn temja sér að tala á óheflaðan hátt við snjalltækin geti það smitast yfir í hvernig þau tala við annað fólk og gæti þá hin annálaða breska kurteisi heyrt sögunni til.
Gerður Guðjónsdóttir talmeinafræðingur segir að foreldrar verði vissulega að fara varlega og reyna að láta börnin nota snjalltækin á ábyrgan hátt. Ef rétt er farið með tæknina geti snjalltækin verið tækifæri fyrir börnin til að læra kurteisleg samskipti.
Gerður hefur þó meiri áhyggjur af að snjalltækjanotkunin sé á kostnað samskipta við aðra heimilismeðlimi og það geti haft áhrif á málþroskann. „Foreldrar og aðrir fullorðnir eru málfyrirmyndir barnanna og hafa mikið að segja með að þau tali rétt mál. Skortur á samtölum við annað fólk er mun meira áhyggjuefni en að börnin stelist til að vera ókurteis við snjalltækin sín.“
Sjá samtal við Gerði í heild í Morgunblaðinu í dag.