„Við erum á rauðu ljósi mjög víða“

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel að það sé mjög brýnt að skoða þessi mál og athuga hvað á við og hvað á ekki við í dag. Við stöndum, eins og ég hef nefnt áður, á ákveðnum tímamótum í menntamálum þjóðarinnar. Við erum á rauðu ljósi mjög víða,“sagði Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, á Alþingi í morgun í umræðum um samræmd próf. Ráðherrann brást þar við fyrirspurn frá Guðmundi Andra Thorssyni, þingmanni Samfylkingarinnar.

Guðmundur Andri vísaði til gagnrýni á samræmd próf frá Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, gagnrýnt samræmd próf í íslensku. Þau mældu illa raunverulega þekkingu á íslensku máli, leiddu nemendur í gildrur auk þess sem Eiríkur hafi bent á ýmsar villur í prófunum. Við gagnrýni Eiríks hefði ekki verið brugðist af hálfu Menntamálastofnunar.

„Íslenskunám nemenda í grunnskóla fer mikið í að búa sig undir þessi próf með tilheyrandi ævintýralegum leiðindum og jafnvel áralangri andúð á íslenskri tungu og íslenskum bókmenntum,“ sagði Guðmundur Andri ennfremur.

Lilja sagði stjórnvöld ekki komin á þann tímapunkt að ákveða um framhaldið varðandi samræmdu prófin. „Þau hafa verið iðkuð í talsverðan tíma, þau hafa sína kosti og þau hafa líka sína galla, en það þarf að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki og við þurfum að taka svona ákvörðun og vera búin að undirbúa hana mjög vel.“

Lilja þakkaði Guðmundi Andra fyrir ábendingar hans og sagðist vilja skoða þær í samvinnu við þingið. „Það er svo margt sem við þurfum að gera til að styrkja alla umgjörð í kringum menntamálin í landinu.“

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert