„Þetta er óásættanlegt“

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Rax

„Ég er afar ósátt við hversu illa þessi framkvæmd hefur gengið,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. Fresta þurfti samræmdu prófi 9. bekkjar í ensku í morgun vegna tæknilegra örðugleika en áður þurfti að fresta íslenskuprófi á miðvikudag af sömu ástæðu.

Lilja bendir á að ráðuneytið muni funda með hagsmunaaðilum vegna málsins næsta miðvikudag þar sem tekin verði ákvörðun um næstu skref. „Nemendur munu njóta vafans í þeirri ákvörðunartöku,“ segir Lilja.

Hún segir að það sé ekki búið að taka ákvörðun um hvort prófin verði felld niður í ár. Ráðherra segir enn fremur að sér þyki mjög leitt að nemendur og kennarar hafi orðið fyrir óþægindum vegna þess að framkvæmd prófanna hafi mistekist.

„Nemendur hafa búið sig undir þessi próf í langan tíma og þetta er óásættanlegt.“

Gengur ekki að hafa vefþjón sem ræður ekki við álagið

Menntamálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd prófanna og Lilja segir það alveg ljóst að það þurfi að endurskoða prófin. „Það gengur ekki upp að vera með vefþjón sem ræður ekki við álag af þessu tagi og það sést núna að þetta er ekki einangrað atvik.“

Lilja bendir á að hún hafi sagt á Alþingi í gær að hún vilji skoða tilgang samræmdra prófa og sjá hvaða markmiðum við náum með þeim. „Hins vegar er það svo að við erum ekki komin það langt í þessari vinnu að taka ákvörðun um það hvort samræmd próf verða haldin eftir eitt ár eða ekki. Aðalatriðið er að taka á þessari stöðu sem upp er komin og taka ákvörðun um gildi prófanna. Framkvæmdin er óásættanleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert