„Íslenskt samfélag hefur pláss fyrir alla,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í stefnuræðu sinni á landsþingi Viðreisnar í Hljómahöllinni Reykjanesbæ í dag.
Þorgerður gerði jafnrétti, frjálslyndi og utanríkismál að umfjöllunarefni sínu í ræðunni.
„Í frjálslyndi okkar er fólgið umburðarlyndi. Umburðarlyndi fyrir ólíku fólki, ólíkum skoðunum og ólíkum viðfangsefnum. Ekkert okkar er eins - og það er pláss fyrir okkur öll. Við reynum að dæma ekki og ennþá síður að fordæma. Þannig er frjálslyndi í verki. Og þannig viljum við vera. Víðsýn - ekki þröngsýn. Fyrir alla - ekki suma,“ segir Þorgerður.
„En hvers vegna er það þá sem Viðreisn, ungur flokkur sem skuldar engum hagsmunaöflum nokkurn skapaðan hlut, frjálslyndur velferðarflokkur, alþjóðasinnaður jafnréttisflokkur sem hefur fólk raunverulega í fyrirrúmi, styður við heilbrigt umhverfi fyrirtækja og segir úreltum viðhorfum stríð á hendur, fer ekki með himinskautum frá fyrsta degi? Í mínum huga er svarið tvíþætt.
Annars vegar það sem margir telja einn hættulegasta lífsstílssjúkdóm hins vestræna heims - meðvirkni. Hins vegar það sem er svo ríkt og skiljanlegt í mannlegu eðli - ótti við breytingar. Þú veist hvað þú hefur en ekki endilega hvað þú færð,“ segir Þorgerður.
Þorgerður segir utanríkismál mikilvæg. „Þeir eru til sem segja að stjórnmálaflokkur sem gerir mikið úr stefnu sinni í utanríkismálum sé eins máls flokkur. En nú á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld líta þeir sem þannig tala svolítið út eins og álfar úr hól grárrar forneskju. Eða við gætum sagt að þeir minni helst á staka steina út í einhverjum hádegismóanum. Staðreynd er að slík viðhorf lýsa tímaskekkju.
Það er einfaldlega ekki hægt að taka alhliða afstöðu til viðfangsefna samtímans nema hafa skýra sýn á það hvernig við skipum málum okkar sem best í samskiptum og samvinnu við aðrar þjóðir. Að sleppa tækifærum á þeim vettvangi er það sama og sleppa tækifærum fyrir Ísland. Þeir sem halda að þau mál hafi verið afgreidd í eitt skipti fyrir öll fyrir áratugum skilja einfaldlega ekki breytingar samtímans.“
„Í dag horfum við á miklar hræringar í alþjóðasamfélaginu. Og það er mikil ólga í þeim vestræna hugmyndaheimi þar sem við höfum skipað okkur í sveit, bæði austan hafs og vestan. Þetta kallar á endurmat á pólitískri og efnahagslegri stöðu okkar og þátttöku í fjölþjóðasamstarfi.
Bandaríkin eru að gera gömlum bandalagsþjóðum æ erfiðara um vik að líta á þau sem forysturíki. Þau eru markvisst að hverfa frá því skipulagi frjálsra heimsviðskipta sem þau sjálf komu á. Hugtök eins og skyldur við bandamenn í lýðræðisríkjum og frjáls viðskipti heyrast nú sjaldnar. Því meir er talað um einangrun, veggi, girðingar og tollmúra.
Popúlismi af svipuðum toga hefur líka skotið rótum víða í Evrópu á jöðrunum yst til vinstri og hægri. Eftir Brexit áttu margir von á því að popúlisminn væri að taka yfir í álfunni. Sú hefur ekki orðið raunin enn. En popúlisminn er eigi að síður veruleiki bæði austan hafs og vestan sem ekki verður litið framhjá.“
Þorgerður segir krónuna stærstu áskorun sem við blasir við í því hvernig hægt sé að bæta íslenskan efnahag. „Íslenskri þjóð þykir vænt um krónuna sína, það á hana jú enginn annar í heiminum. Hún er líka fín meðan þú átt hana og allt er í lukkunnar velstandi. Um leið og þú skuldar hana er hún hins vegar slóttug og jafnvel ofbeldisfull. Hún hefur valdið meiri efnalegum mismun milli þeirra sem hafa aðstöðu til að standa utan krónuhagkerfisins og hinna sem eru bundnir innan þess.“
Þá kom fjallar hún um framboð Viðreisnar í Reykjavík. „Í Reykjavík förum við fyrir eigin vélarafli - og sú maskína er engin smásmíði enda verkefnið stórt og erindið mikilvægt. Tvennt má nefnilega ekki gerast.
Annars vegar að núverandi meirihluti Dags B. Eggertssonar haldi óbreyttur velli vegna þess að þörfin fyrir nýjar raddir, ferska vinda, viðsnúning í leikskóla- og menntunarmálum og margt fleira er gífurleg ef borgin á að standa undir væntingum og vera það aðdráttarafl sem við öll viljum að hún verði. Hitt sem ekki má gerast er að Sjálfstæðisflokkurinn með allt sitt íhald komist til valda á grunni orðræðu oddvitans sem endurspeglar gömlu valdablokkirnar í Sjálfstæðisflokknum.
Og alltaf þegar vonir eru bundnar við að gamalkunnar risaeðlur séu að slaka á klónni, birtast þær skyndilega eins og grameðlurnar í Júragarðinum.“