Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stöðu Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, aldrei hafa verið veikari. Niðurstaða formannskosningar Eflingar og yfirburðasigur grasrótarinnar innan fleiri verkalýðshreyfinga sé skýr krafa um breytingar, meðal annars innan forystu ASÍ.
„Ef að staða Gylfa Arnbjörnssonar var veik fyrir þá hefur hún aldrei verið veikari. Ég á ekki von á því að hann fari fram aftur á ASÍ-þinginu í haust,“ sagði Ragnar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hann sagði það mikla og stóra niðurstöðu fyrir verkalýðsbaráttuna hér á landi að grasrótin stigi fram með jafnafgerandi hætti og raun ber vitni. Vísaði hann þar meðal annars til 80 prósenta kosningar Sólveigar Önnu Jónsdóttur til formanns Eflingar í liðinni viku og yfirburðasigurs grasrótarinnar innan Kennarasambandsins. Þá hefði kjör hans til formanns VR einnig verið hluti af þessari byltingu. Að hans mati mun þetta sameina verkalýðshreyfinguna.
Hann sagði VR vera byrjað á því ferli að segja sig úr ASÍ, en niðurstaðan í formannskjöri Eflingar sé að breyta hans viðhorfi gagnvart ASÍ. „Þegar maður sér fram á að það sé að verða viðhorfsbreyting innan Alþýðusambandsins, það eitt og sér verður þá væntanlega til þess að við munum frekar koma sameinuð inn í næstu kjarasamningaviðræður heldur en sundruð. Ég held að þetta sé stór og mikil niðurstaða fyrir hreyfinguna í heild sinni.“