Íslendingar standa ekki mjög vel þegar kemur að því hvað þeir fá fyrir krónurnar sem þeir vinna fyrir. Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en hann var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Ragnar sagðist hafa fengið hagfræðing til að bera saman tölur frá nokkrum löndum og í ljós hafi komið að kaupmáttur hér á landi er um 20 prósent lægri en í Danmörku og Svíþjóð og 35 prósent lægri en í Sviss. Þá kom í ljós að kaupmáttur á Íslandi er 10 prósent lægri en í New York í Bandaríkjunum. Hann tók þó fram að snúið væri að bera þessar tölur saman, enda ekki sambærileg mælitæki í öðrum löndum, en til stæði að gera enn nákvæmari samanburð.
Hann sagðist hafa blendnar tilfinningar gagnvart þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram um að Íslendingar væru að setja heimsmet í hækkun launa, enda væru það ekki prósenturnar sem skiptu máli, heldur krónurnar. Það væri ekki hægt að kaupa mat eða bensín fyrir prósentur, til þess þyrfti krónur.
„Við höfum verið að tala fyrir því að það er ekki nóg að hækka laun. Við þurfum að sjá til þess að við getum lifað á því sem við erum að fá í laun. Þá horfum við til dæmis á vaxtastigið. Ef við myndum lækka hér vexti um eitt eða tvö prósent, það myndi hafa gríðarleg áhrif á allt samfélagið, kaupmáttaraukningu fyrir fólkið okkar, getu fyrirtækjanna til að gera betur við sitt starfsfólk, svo ég tali nú ekki um hugsanlega leiguverð, að það gæti myndast svigrúm fyrir leigufélög til að lækka leigu.“
Ragnar sagði jafnframt að með því að auka rástöfunartekjur þeirra sem ná ekki endum saman í gegnum skattkerfið væri hægt að auka innspýtingu inn í neysluna, sem væri gott fyrir fyrirtækin og myndi auka þeirra getu enn frekar til að gera betur við sitt starfsfólk og auka svigrúm til launahækkana.
„Við gætum lækkað hér vexti fyrir hádegi á morgun“
Hann sagði forystu VR vera tilbúna að taka launliðinn út fyrir sviga í kröfum sínum ef hægt væri að ræða aðra þætti sem kæmu að grunnþjónustunni, að fólk fengi meira fyrir peninginn sinn.
Hann sagði núverandi vaxtastig ekki náttúrulögmál sem við sætum uppi með, þetta væri einfaldlega ákvörðun. „Við gætum lækkað hér vexti fyrir hádegi á morgun, en það vantar bara viljann og skilning á því að peningastefnan sem hér er rekin stenst ekki nokkra einustu skoðun,“ sagði Ragnar og bætti við að hann hefði ekki skilning á því af hverju hún væri rekin með þessum hætti.
Þá sagði hann margar af kröfum verkalýðshreyfingarinnar þyrftu ekki að kosta mikið. „Margar af okkar kröfum kosta ekki krónu. Þær kosta ekki mikið. Það kostar ekkert að lækka vexti. Það kostar ekkert endilega að breyta skattkerfinu til að það nýtist betur lágtekju- og millitekjufólki,“ sagði Ragnar meðal annars. Þetta væri það sem þyrfti að hafa til hliðsjónar í komandi kjarasamningum, hvernig bæta ætti lífsgæði fólks.
Ragnar sagðist í grundvallaratriðum vera sammála Sólveigu Önnu Jónsdóttur, nýkjörnum formanni Eflingar um að þétta þyrfti öryggisnetið og hækka grunninn. Hann benti á að VR og Efling væru mjög ólík félög, enda væru í VR bæði afgreiðslufólk á kassa á lágmarkslaunum og sérfræðingar á háum launum. Hann sagðist þó viss um að hægt væri að koma sér saman um kröfur sem gætu gagnast öllum hópunum. Meðal annars kröfur um breytingar á skattkerfinu og lækkun á vöxtum.