Alvarleg atvik komið upp vegna álags

Á álagstímum er ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga á …
Á álagstímum er ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga á bráðamóttökunni. mbl.is/Styrmir Kári

Mjög mikið álag, plássleysi og lágmarksöryggi er orðið að hinu venjulega og viðvarandi ástandi á bráðamóttöku Landspítalans. Ástand sem engu að síður er fullkomlega óeðlilegt og í raun óboðlegt bæði sjúklingum og starfsfólki.

„Okkar langar til að geta boðið sjúklingunum okkar betri þjónustu og meira öryggi heldur en þetta,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirmaður bráðamóttöku Landspítalans í samtali við mbl.is. Slíkt er hins vegar ekki í boði á meðan staðan er eins og hún er í dag.

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið sérstaklega erfiðir, meðal annars vegna flensutímabilsins. Febrúar var mjög erfiður. Aðfaranótt 13. fe­brú­ar, voru til að mynda 63 sjúk­ling­ar á bráðamót­tök­unni þar sem rúm­stæði eru fyr­ir 32 sjúk­linga og bið eft­ir lækn­is­skoðun var allt að sex klukku­stund­ir. Ástandið var þannig að heilbrigðisráðherra var upplýstur um alvarlega stöðu á bráðamóttöku.

20 rúm teppt af sjúklingum sem bíða innlagnar

Staðan er aðeins betri í dag. „Ástandað er skárra en það var þessa nótt. Það er alveg klárt. Ástandið er hins vegar áfram mjög þungt og ekki ásættanlegt fyrir sjúklingana sem koma hérna til okkar,“ segir Jón Magnús.

Af þeim 32 rúmstæðum sem eru til staðar á neðri hæð bráðamóttökunnar, sem ætluð er fólki með alvarleg veikindi og ákverka eftir slys, eru 20 teppt af sjúklingum sem eru að bíða innlagnar. Um er að ræða sjúklinga sem lokið hafa rannsóknum og meðferð á bráðadeild. Þá liggja 12 sjúklingar á gangi. Samtals eru núna 84 sjúklingar á bráðamóttökunni á tveimur deildum; bráðadeild G2 sem vísað er til hér að ofan og svo bráða- og göngudeild G3 fyrir minniháttar veikindi og slys. Sú síðarnefnda er ekki opin að næturlagi.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Jón Magnús segir Landspítalann hafa sett sér það markmið að sjúklingar séu að hámarki sex tíma á bráðamóttökunni þegar búið er að taka ákvörðun um innlögn. Núna er biðin að meðaltali yfir 20 klukkustundir og því ljóst að spítalinn er langt frá því markmiði sem hann hefur sett sér.

„Þetta þýðir að í raun eru bara 12 rúmstæði laus fyrir nýja bráðveika og mikið slasaða sjúklinga. Með þessum 12 tómu plássum þurfum við að sinna öllum þeim 80 til 100 sjúklingum sem koma næsta sólarhring,“ segir Jón Magnús.

Aðeins hægt að tryggja lámarksöryggi

Flensan og öndunarfæraveirusýkingar eru heldur á undanhaldi og ekki eru til staðar sérstakir álagspunktar núna, að sögn Jóns. Álagið er samt mikið. Of mikið. „Þetta er bara áframhald af vaxandi álagi sem hefur verið undanfarna mánuði og ár,“ útskýrir hann.

Á álagstímum eykst álagið enn frekar og eitthvað gefur eftir. Eins og nóttina 13. febrúar síðastliðinn, þá var ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga sem á bráðamóttökuna leituðu.

„Þegar svona staða kemur upp þá getum við ekki tryggt með fullnægjandi hætti öryggi allra sjúklinga. Það hafa komið upp atvik, bæði minna og meira alvarleg, í gegnum tíðina, sem við rekjum til þessa ástands. Þetta er að hafa áhrif á þá þjónustu sem fólk er að fá og það öryggi sem það getur búist við á þessum álagstoppum.“

Sem betur fer er ástandið þó ekki svona slæmt alla daga. Ástandið þessa dagana, líkt og síðustu mánuði, nær þó aldrei að vera eins og það ætti að vera. Þegar ástandið er sem best er einungis hægt að tryggja lágmarsöryggi sjúklinga „Eins og daginn í dag teljum við okkur ná að tryggja lámarksöryggi. Þegar álagspunktar koma þá reynist það okkur ekki hægt.“

Nauðsynlegt að flýta aðgerðum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerði grein fyrir erfiðum aðstæðum á Landspítalanum á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag og lagði áherslu á að hratt yrði unnið að verkefnum sem hafa verið ákveðin til að efla heilbrigðiskerfið og styrkja mönnun þess. Yfirlýsing þess efnis liggur fyrir undirrituð af forsætis-, fjármála- og heilbrigðisráðherra. Þar kemur meðal annars fram að farið verði í umbætur á kjörum og starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna. Ráðherra leggur einnig áherslu á uppbyggingu hjúkrunarrýma sem veigamikinn þátt í að styrka heilbrigðiskerfið.

Um 250 hjúkrunarfræðinga vantar á Landspítalann og hefur það gríðarleg …
Um 250 hjúkrunarfræðinga vantar á Landspítalann og hefur það gríðarleg áhrif á starfsemi bráðamóttökunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Jóni Magnúsi þykja þetta góð tíðindi og er ánægður með að ráðamenn séu að taka við sér. „Við erum mjög ánægð með að ráðherra skuli taka þetta mál upp á sína arma og vonumst til þess að það verði af þessum flýttu aðgerðum sem hún talar um. Það er nauðsynlegt til að tryggja öryggi sjúklinga. Við gerum okkar besta í þessari stöðu sem er núna en því miður þá dugir það ekki alltaf til.“

Vantar 50 hjúkrunarrými og 250 hjúkrunarfræðinga 

En af hverju er ástandið á bráðamóttökunni svona slæmt núna? Jón Magnús segir ástæðuna tvíþætta; skortur á hjúkrunarrýmum fyrir aldraða og vöntun á hjúkrunarfræðingum.

„Allt hangir þetta saman. Ástæðan fyrir því að sjúklingar eru á ganginum er af því aðrir sjúklingar eru í þeim rúmstæðum sem þeir sjúklingar ættu að vera í. Sjúklingarnir ná ekki að leggjast upp á legudeild vegna þess að þar eru fyrir sjúklingar sem hafa lokið sinni sjúkrahúsdvöl og komast ekki á hjúkrunar- eða dvalarheimili. Þetta hefur allt keðjuverkandi áhrif,“ útskýrir hann, en þetta ástand kemur illa niður á bráðamóttökunni.

„Þó að vandinn birtist kannski skýrast á bráðamóttökunni þá liggur vandinn ekki hér og í raun og veru og ekki nema í litlu mæli hjá spítalanum sjálfum. Vandinn liggur í heildarskipulagi heilbrigðiskerfisins. Þar er stærsta atriðið að það vantar mjög brátt að opna um 50 hjúkrunarpláss. Það myndi létta mjög á þessu ástandi. Það er sú aðgerð sem myndi hafa langmest áhrif.“

Jón fagnar því að ráðamenn séu loks að taka við …
Jón fagnar því að ráðamenn séu loks að taka við sér, þó að seint sé. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hinn þátturinn er mönnunin. Mönnun hjúkrunarfræðinga og í raun líka annarra umönnunarstétta, líkt og sjúkraliða. Mest vantar þó af hjúkrunarfræðingum, en um 250 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á Landspítalanum.

„Þessir tveir þættir eru undirliggjandi orsökin fyrir þeirri stöðu sem við erum komin í. Það er mjög ánægjulegt að núna virðist loksins vera hlustað á okkar raddir, þó seint sé. Við höfum varað við því að við séum á leið í þetta ástand um nokkurra ára skeið. Því miður komu viðbrögðin ekki tímanlega svo við gætum komið í veg fyrir það, en við vonumst til að við séum núna að komast í gott samstarf um að reyna að leysa úr þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert