Ólafur Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir miklar launahækkanir óraunhæfar í íslenskri ferðaþjónustu. Skeið hægari vaxtar sé runnið upp í greininni.
Tilefnið er meðal annars yfirlýsingar nýrra verkalýðsforingja um að láglaunafólk hafi setið eftir. „Maður heyrir tóninn í nýja forystufólkinu. Það á að beita öllum tiltækum ráðum til að ná fram betri kjörum og hærri launum. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því ef langt verður gengið í þessum efnum.“
Ólafur segir laun starfsmanna hafa hækkað verulega hjá Íslandshótelum síðustu misseri. Önnur hótel glími við sama vanda. Dæmi séu um að hótelkeðjur á Íslandi hafi útvistað ræstingu til að bregðast við auknum launakostnaði. Íslandshótel hafi ekki gripið til slíkra ráða til að draga úr kostnaði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.