Hannes braut gegn siðareglum HÍ

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, braut siðareglur HÍ.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, braut siðareglur HÍ. mblþis/Ómar Óskarsson

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, braut gegn siðareglum Háskólans þegar hann hélt því ítrekað fram að fjölmiðillinn Kjarninn væri fjármagnaður af erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna. Þetta er niðurstaða siðanefndar Háskóla Íslands. Nefndin vísar hins vegar frá þeim atriðum kærunnar sem velta á sannleikskildi ummælanna sem Hannes lét falla bæði í pistli á vefmiðlinum Pressunni og á Facebook-síðu sinni.

Þórður Snær Júlísson, ritstjóri og einn eigenda Kjarnans kærði Hannes til siðanefndar Háskólans, en Þórður er sjálfur stundakennari við skólann.

Í kærunni segir að Hannes hafi ítrekað og um langt skeið haldið fram fram ósannri og rætinni fullyrðingu um fyrirtæki Þórðar fjölmiðilinn kjarnann, og starfsmenn þess. Hún sé þess eðlis að um atvinnuróg sé að ræða sem hafi valdið fyrirtækinu orðsporsskaða og fjárhagstjóni og starfsmönnum þess erfiðleikum í starfi.

Fullyrðingin um að fjölmiðillinn sé fjármagnaður af erlendum kröfuhöfum erlendu bankanna og að hann gangi erinda þeirra eigi sér enga stoð í raunveruleikanum. Hafi Hannesi verið ítrekað boðið að rökstyðja hana eða draga til baka. Einnig hafi honum verið boðið að spyrja allra þeirra spurninga sem hann hafi um fjármögnun Kjarnans. Hannes hafi ekki orðið við þessum tilmælum heldur endurtekið hina ósönnu fullyrðingu margsinnis síðan, jafnt í tali sem og ritum, í fjölmiðli og á samfélagsmiðlum. Opinber gögn sýni að fullyrðingarnar séu rangar.

Segist njóta sama réttar til að tjá sig og aðrir

Hannes mótmælir málavaxtalýsingu Þórðar. Hann hafi verið prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands um áratuga skeið og auk þess verið virkur þátttakandi í opinberri umræðu. Eðli málsins hafi atburðir síðustu ára verið tíðræddir. Hann og Þórður hafi verið ósammála um fjölmarga hluti og skipst á skoðunum hvað varðar fjármálaáfallið og hagsmunagæslu erlendra kröfuhafa hinna föllnu íslensku banka, eins og hann orðar það. Segir hann kæruna ekki varða siðareglur HÍ og sé tilefnislaus. Kæran varði ummæli sem sett hafi verið fram í opinberri umræðu og telur Hannes sig njóta sama réttar og aðrir borgarar til að taka þátt og tjá síg í slíkri umræðu án afskipta siðanefndar.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans. mbl.is/Styrmir Kári

Þá falli inn skrifin ekki undir rannsóknir, kennslu og nám, heldur séu sett fram í almennri umræðu. Þá séu ummæli hans sett fram að honum persónulega ekki í nafni HÍ. Í athugasemdum Þórðar við greinargerð Hannesar segir hins vegar að persóna hans verði ekki aðskilin því að hann sé prófessor við HÍ og að það gefi ummælum hans „aukinn trúverðugleika að hann gegni þeirri stöðu.“

Virti ekki sem skyldi reglur um málefnaleg skoðanaskipti

Siðanefndin er sammála þessum athugasemdum Þórðar. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að nefndin telji ágreiningsefnið geta varðað siðareglur HÍ að því leyti að háskólaborgurum beri að sýna hver öðrum virðingu í ræðu og riti. „Því felst ábyrgð háskólaborgara í því að endurtaka ekki staðhæfingar á opinbergum vettvangi, sem er mótmælt og ítrekað óskað eftir að þeir leiðrétti, án þess að færa rök fyrir þeirri afstöðu eða eftir atvikum vísa til heimilda, en ella draga þær til baka. Þykir það eiga sérstaklega við ef háskólaborgari aðgreinir sig ekki frá því hlutverki sínu með skýrum hætti eins og á við um pistil kærða á Pressunni.“

Niðurstaða nefndarinnar er að Hannes hafi ekki virt sem skyldi ábyrgð sína samkvæmt reglum um málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti um að háskólaborgarar skuli vera minnugir stöðu sinnar þegar þeir taka þátt í opinberri umræðu, með því að hafna ítrekað áskorun um leiðréttingu eða rökstuðningi, en ein meginskylda háskólaborgara er að stuðla að því að fram komi það sem sannara reynist.

„Þykir kærði hafa brotið gegn siðareglum með því að hafna því, þegar eftir því var leitað, að færa rök fyrir fullyrðingu sem hann setti fram opinberlega sem háskólaborgari í pistli sínum á Pressunni og kærandi segir ósanna og meiðandi.“

Kjarninn er þó ekki talinn vera í jafn viðkvæmri stöðu og ef um einstakling væri að ræða og brotið því ekki talið alvarlegt þó það snerti mikilvæg viðmið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert