Gengu í það heilaga á Hlemmi

Brúðhjónin Eric og Jennifer Stover í sérprjónuðu lopapeysunum ásamt starfsfólki …
Brúðhjónin Eric og Jennifer Stover í sérprjónuðu lopapeysunum ásamt starfsfólki Skál! Anna Dagbjört er lengst til hægri. Ljósmynd/Aðsend

Hlemmur mathöll hefur vakið lukku meðal landsmanna sem og ferðamanna sem hafa lagt leið sína þangað frá því að höllin opnaði síðasta sumar. En það er óhætt að fullyrða að fáir hafi heillast jafn mikið af Hlemmi og bandaríska parið Jennifer og Eric Stover.

Jennifer og Eric stoppuðu nokkrum sinnum við í Mathöllinni á meðan dvöl þeirra stóð hér á landi. „Þau komu fyrst til okkar síðustu helgi og eitt af því fyrsta sem þau sögðu var: „Vá hvað þetta er æðislegur staður, við gætum gift okkur hérna,“ og ég hlæ og geri ráð fyrir því að þetta hafi verið létt grín,“ segir Anna Dagbjört Styrmisdóttir, starfsmaður á veitingastaðnum Skál! í samtali við mbl.is.

Parinu var hins vegar fúlasta alvara og hafa komið reglulega við á Skál! síðustu daga og kynntist Anna Dagbjört Eric og Jennifer ágætlega. „Þau höfðu látið prjóna á sig lopapeysur og þau segja mér að þau séu bæði mikið fyrir góðan mat og drykk og hafa því alltaf vitað að þau myndu vilja gifta sig á slíkum stað á Íslandi.“

Skáluðu á Skál!

Á miðvikudaginn stóðu þau við stóru orðin og rétt eftir hádegi mættu þau í nýju peysunum og sögðu Önnu Dagbjörtu að von væri á manni klukkutíma seinna sem ætlaði að gifta þau. „Það var mikil spenna í okkur starfsfólkinu á Skál! og þegar stundin var runnin upp þurfti ég að hafa mig alla við að halda tárunum inni því þetta var svo yndislegt og einfalt allt saman,“ segir Anna Dagbjört.

Allt gekk að óskum og þegar hringarnir voru komnir upp var ekkert annað að gera en að opna freyðivínsflösku og skála á Skál! „Það var ótrúlegur heiður að fá að vera viðstödd þessa athöfn,“ segir Anna Dagbjört.

Næsti viðkomustaður brúðhjónanna er afar viðeigandi en þau eru stödd í París, borg ástarinnar, þar sem þau eyða hveitibrauðsdögunum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert