Ekki fylgst sérstaklega með örplastinu

Umhverfisráðuneytið vinnur að samantekt þekkingar er varðar plast og plastmengun.
Umhverfisráðuneytið vinnur að samantekt þekkingar er varðar plast og plastmengun. fergregory,Thinkstock

Magn plastagna í andrúmslofti er ekki vaktað sérstaklega, né heldur er sérstakt eftirlit haft með plastögnum úr umbúðum. Þetta kom fram í svörum umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur þingmanns Samfylkingarinnar.

Spurði Oddný m.a. hvernig eftirliti með plastögnum í neysluvatni og drykkjar- og matvælaumbúðum væri háttað, sem og með hvaða hætti er fylgst með því að framleiðendur losi ekki plastagnir í andrúmsloftið.

Fram kom í svörum ráðherra að ekki hafi til þessa þótt vera tilefni til eftirlits með plastögnum í íslensku neysluvatni. Í ljósi niðurstaðna vefmiðilsins Orb Media hafi Veitur hins vegar ráðist í rannsókn á því hvort plastagnir fyndust í neysluvatni á Reykjavíkursvæðinu. Niðurstöður þeirra rannsóknar bendi til þess að 0,1–0,2 agnir finnist í hverjum hálfum lítra vatns. Það sé töluvert lægra en mældist í rannsókn Orb Media, en 4,8 agnir mældust að jafnaði í hálfum lítra neysluvatns í Bandaríkjunum og 1,9 agnir í Evrópu. 

Falla í flokk svifryks

Það eru Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og Matvælastofnun sem hafa eftirlit með notkun matvælaumbúða og fylgja þar reglugerðum Evrópusambandsins. Umbúðir eru einn af þeim þáttum sem skoðaðir eru þegar eftirlitsmenn Matvælastofnunar fara í framleiðslufyrirtæki, s.s. matvælavinnslur, en það er Matvælaöryggisstofnun Evrópu sem beri ábyrgð á áhættugreiningu efna sem nota skuli í hluti sem komst í snertingu við matvæli. 

„Ekki er sérstakt eftirlit með plastögnum úr umbúðum,“ segir í svarinu. „En samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun eru plastagnir ekki vandamál varðandi umbúðir meðan þær gegna hlutverki sínu. Þegar þær fara síðan að brotna niður myndast plastagnir.“ 

Spurningunni um það með hvaða hætti fylgst sé með því að framleiðendur losi ekki plastagnir í andrúmsloftið og hvernig eftirliti með plastögnum í andrúmslofti sé háttað sagði í svörum ráðherra að plastagnir falli í flokk svifryks og að svifrykið sé vaktað.

Ýmsar vörur eru framleiddar úr plastefnum á Íslandi og starfsleyfis frá heilbrigðisnefnd viðkomandi sveitarfélags er krafist vegna slíkrar starfsemi, sem verður að viðhafa allar viðeigandi mengunarvarnir. Það er síðan heilbrigðiseftirlit á viðkomandi svæði sem annast reglubundið mengunarvarnaeftirlit með starfseminni. 

„Vöktun á loftgæðum hér á landi hefur eflst á undanförnum árum. Bæði hefur mælistöðum og þeim efnum sem mæld eru fjölgað. Svifryk er meðal þeirra þátta sem vaktaðir eru en í þann flokk falla plastagnir, segir í svarinu. Magn plastagna sé hins vegar ekki vaktað sérstaklega.

„Gerðar voru rannsóknir á samsetningu svifryks í Reykjavík árin 2003, 2013 og 2015. Helstu uppsprettur ryksins eru malbik, sót, jarðvegur, salt og bremsuborðar. Eftir eldgos í Eyjafjallajökli var aska áberandi þáttur í rykinu. Vægi sóts hefur vaxið, sem að líkindum má rekja til aukinnar umferðar og hærra hlutfalls dísilbifreiða. Þetta er áhyggjuefni því að sótagnir eru fíngerðar og heilsuspillandi. Undanfarin ár hefur ársmeðaltal svifryks á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar, þar sem álagið er hvað mest, verið undir heilsuverndarmörkum.“ 

Losun vegna slits á hjólbörðum ekki verið metin

Þá hefur losun vegna slits á hjólbörðum ekki verið metið á Íslandi, en norrænar rannsóknir sýna að plastagnir í umhverfinu koma að stærstum hluta frá sliti af dekkjum og vegum vegna umferðar. Þær „agnir geta borist í yfirborðsvatn og niðurföll, en einnig þyrlast upp sem svifryk eða endað í jarðvegi í nágrenni akbrautanna.“ 

Samantekt af sameiginlegri rannsóknamiðstöð framkvæmdastjórnar ESB frá 2014 bendir samkvæmt svörunum til þess að  10–30% af gúmmíhluta barðans slitni og berist út í umhverfið og að af því losni 0,1–10% sem svifryk.

Í þeirri samantekt kemur fram að í ryki frá dekkjum og bremsubúnaði séu efni sem geti verið hættuleg. „Ekki hafi þó verið gerðar heildstæðar rannsóknir sem tengja neikvæð heilsufarsáhrif við ryk frá þessum uppsprettum.“    

Unnið að samantekt um plast  og plastmengun 

Oddný spurði einnig  hver stefnumörkun ráðherra væri til að koma í veg fyrir mengun neysluvatns, svo og matvæla og andrúmslofts, af plastögnum? 

Sagði í svarinu að  athygli hafi á undanförnum árum beinst í ríkari mæli að plasti og skaðsemi þess. „Milljónir tonna af plasti berast árlega til sjávar og hafa þar margvísleg áhrif. Með aukinni þekkingu hefur örplast, þ.e. smágerðar plastagnir, og hugsanleg skaðsemi þess fengið aukna athygli umhverfisyfirvalda og almennings. Unnið er að rannsóknum á þessu sviði en þekkingin er takmörkuð enn sem komið er.“

Hér á landi, líkt og annars staðar sé lögð aukin áhersla á að draga úr mengun vegna plasts og málið m.a. nefnt í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Þá vinni umhverfis- og auðlindaráðuneytið um þessar mundir, í samvinnu við undirstofnanir, að samantekt þekkingar er varðar plast og plastmengun.

„Á grunni þeirrar vinnu hyggst ráðherra móta sérstaka stefnu er snýr að rannsóknum og vöktun, fræðslu um plastmengun og áhrif hennar á lífríki og umhverfi, tillögum að stjórnvaldsaðgerðum, og að hreinsun plasts úr umhverfi okkar,“ segir í svarinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert