Ekki eru stundaðar óhefðbundnar lækningar á Landspítalanum. Sjúklingum á mörgum deildum er þó boðið upp á fjölbreytilega viðbótarmeðferð, sem nytsama og skaðlausa aukameðferð til hliðar við gagnreynda meðferð.
Þetta kemur fram á vefsíðu Landspítalans.
Um fimmtíu sálfræðingar skrifuðu á dögunum undir yfirlýsingu sem var nýlega send Sálfræðingafélagi Íslands þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum af notkun óhefðbundinna læknismeðferða við geðsjúkdómum.
Á síðu Landspítalans segir að hið sama geri nær allir spítalar á heimsvísu. Má þar nefna slökun, jóga og íþróttir.
„Eins og nafnið gefur til kynna er um viðbótarmeðferð að ræða, ekki meginmeðferð, né fá sjúklingar einungis þess háttar meðferð á Landspítala. Gagnreynd meðferð byggir á aðferðum, sem sýnt hefur verið fram á að skila árangri, enda byggja þær á faglegum vísindarannsóknum,“ segir á síðunni.