Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata spurði Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra um smávægileg fíkniefnabrot á sakaskrá í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag og varð mjög undrandi á svari ráðherra, sem sagðist hafa þá afstöðu að öll brot ættu heima á sakaskrá.
„Hver er afstaða dómsmálaráðherrans til þess að smávægileg fíknefnabrot fari ekki á sakaskrá?“ spurði Helgi og bætti því við hvort Sigríður vildi beita sér fyrir því að svo yrði.
Hann hafði áður rakið það að smávægileg fíkniefnabrot á sakaskrá gætu þvælst fyrir fólki í vinnu og lífinu almennt og því ætti að koma í veg fyrir að slík brot enduðu á sakaskrá einstaklinga. Það hefur starfshópur um endurskoðun á stefnu í vímuefnamálum meðal annars lagt til.
Í skýrslu starfshópsins sem unnin var fyrir heilbrigðisráðherra og skilað haustið 2016 segir:
„Lagt er til að reglum um sakaskrá verði breytt þannig að sérstaða brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni verði afnumin. Í því felst að brot sem einungis sæta sekt … eru ekki skráð á sakaskrá frekar en önnur sektarbrot, nema sektin nái tilteknu lágmarki.“
Þar er talað um 100.000 krónur sem lágmark.
Sigríður sagðist hafa þá afstöðu að öll brot ættu heima á sakaskrá, en annars væri það í höndum ríkissaksóknara að setja reglur er lúta að skráningu á sakaskrá.
„Umhugsunarvert“ væri fyrir löggjafann hvort það ætti mögulega frekar heima í lagatexta, hvaða brot kæmu fram á sakaskrá.
„Smávægileg brot nefnir háttvirtur þingmaður, það kemur þá bara fram á sakaskránni að þau séu smávægileg,“ sagði Sigríður.
Hún sagði hennar skoðun vera að „ef að brot eru á annað borð sönnuð og dæmd eigi þau heima á sakaskránni,“ en ræða mætti hvaða upplýsingar væru opinberar úr sakaskrá.
„Ég var einhvern veginn barnslega kominn á þann stað að við værum öll hérna sem höfum eitthvað skoðað þessi mál orðin sammála um það að ekki ætti að setja smávægileg fíkniefnabrot á sakaskrá,“ sagði Helgi Hrafn og bætti því við að afstaða Sigríðar væri á skjön við þá orðræðu sem hann hefði heyrt frá Sjálfstæðisflokknum og þá helst frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna.
Hann sagði vissulega mun á sakaskrá annars vegar og þeim upplýsingum sem lögregla hefði um einstaklinga, en að það kæmi honum verulega á óvart að dómsmálaráðherra vildi hafa meira af upplýsingum um minniháttar afbrot í sakaskrá einstaklinga.
„Ég er pínu hneykslaður, ég verð að segja eins og er,“ sagði Helgi Hrafn og sagði afstöðu dómsmálaráðherra vera algjöran viðsnúning frá þeirri orðræðu og umræðu sem hefði átt sér stað í vímuvarnarmálum í þónokkur ár.
„Mér finnst þetta mjög leiðinlegt og ég verð að hvetja hæstvirtan ráðherra til að gera sem minnst í þessu, reyndar,“ sagði Helgi.
Dómsmálaráðherra veitti andsvar öðru sinni og sagði þá að skilgreina þyrfti hvaða fíkniefnabrot það væru sem væru talin smávægileg og spurði einnig af hverju þetta ætti bara að gilda um fíkniefnabrot.
„Mætti þá ekki líta á annarskonar brot, smávægilegir þjófnaðir eða smávægilegt ofbeldi? Ég held að meginreglan hljóti að vera þannig að brot, ef þau eru dæmd og mönnum hefur verið gerð refsing, komi það inn á sakaskrá,“ sagði Sigríður, en áréttaði að full ástæða væri til þess að löggjafinn fjallaði um það hvaða upplýsingar úr sakaskrá eigi almennt að vera opinberar.