Arðgreiðslur Landsbankans 24,8 milljarðar

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Eggert

Landsbankinn greiðir samtals út arð að fjárhæð 24,8 milljarða króna á árinu 2018. Þetta var samþykkt á aðalfundi bankans í dag.

Annars vegar er um að ræða 15.366 milljóna króna arð vegna rekstrarársins 2017, sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins, og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 9.456 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu.

Alls munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013 til 2018 því nema um 131,7 milljörðum króna.

Aðalfundurinn fór fram í útibúi Landsbankans í Austurstræti 11. Í tengslum við fundinn var samfélagsskýrsla Landsbankans fyrir árið 2017 gefin út. Ársskýrsla Landsbankans fyrir árið 2017 kom út samhliða ársuppgjöri 15. febrúar.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs, sagði í ræðu sinni á aðalfundinum að Landsbankinn hefði notið vaxandi meðbyrs á árinu 2017, samkvæmt tilkynningunni.

Það væri í senn mikilvægt og ánægjulegt að kannanir sýndu að traust til bankans hefði aukist og aukna ánægju viðskiptavina með þjónustu hans. Bankanum hefði tekist að halda kostnaði í skefjum og rekstur bankans á árinu 2017 hefði verið í samræmi við áætlanir. Arðsemi eiginfjár eftir skatta hefði þó verið undir langtímamarkmiði og því ljóst að bankinn þyrfti að bæta grunnreksturinn enn frekar. Á árinu 2018 yrði megináhersla lögð á þróun og nýjungar á sviði stafrænnar þjónustu.

Helga Björk sagði að góður rekstur bankans og traustur efnahagur hefði gert honum kleift að greiða út verulegan arð til hluthafa.

Miðað við framlagða arðgreiðslutillögu sem fundurinn samþykkti mun bankinn hafa greitt alls um 132 milljarða króna í arð á tímabilinu 2013-2018. Nánast allar arðgreiðslurnar renna í ríkissjóð sem á 98,2% hlutafjár í bankanum.

Skýrsla stjórnar

Eftirtalin voru kjörin aðalmenn í bankaráð Landsbankans:

  • Helga Björk Eiríksdóttir (formaður)
  • Berglind Svavarsdóttir
  • Einar Þór Bjarnason
  • Hersir Sigurgeirsson
  • Jón Guðmann Pétursson
  • Samúel Guðmundsson
  • Sigríður Benediktsdóttir

Eftirtalin voru kjörin varamenn í bankaráð Landsbankans:

  • Guðrún Ó. Blöndal
  • Þorvaldur Jacobsen
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka