Ásakanir Ólafs Loftssonar, formanns Félags grunnskólakennara, eru dapurlegar og lítilsvirðing gagnvart kennurum. Þetta segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir grunnskólakennari sem er ein þeirra sem Ólafur sakar um „grímulausan áróður“ gegn kjarasamningnum sem grunnskólakennarar felldu í dag.
Hún segir það ekkert nýtt að hún tali gegn þeim kjarasamningum sem boðnir eru kennurum og það tengist ekki framboði hennar til sveitarstjórnarkosninga í vor. Við síðustu þrjá eða fjóra samninga hafi hún talað á sama hátt.
„Ég hef aldrei verið hrifin af þessum samningum og alltaf talað gegn þeim og ég gerði það ekkert á annan hátt núna en ég hef gert áður. Og ég hefði alltaf gert það vegna þess að þessi samningur var bara skammarlegur. Þetta var blaut þriggja prósentu tuska framan í kennara og ég hefði alltaf talað gegn honum,“ segir Ásthildur Lóa.
Fyrr í dag sagði Ólafur Ásthildi Lóu, sem skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík, og Jón Inga Gíslason, formann kjördæmisráðs Framsóknarmanna í Reykjavík, hafa háð herferð á samfélagmiðlum gegn samningum og kallaði þau „pólitískt afl“ sem beitti sér með beinum hætti í atkvæðagreiðslu samningsins.
„Ég er bara kennari og Jón Ingi líka. Við erum bara kennarar og höfum verið virk í réttindabaráttu kennara undanfarin ár.“ Hún segist sorgmædd yfir því að kennurum sé sýnd lítilsvirðing með slíkum málflutningi.
„Mér finnst þetta dapurlegt. Mér fannst kennarar í dag sýna samstöðu á glæsilegan hátt og sýna það að þeir ætla ekki að láta vaða yfir sig. Þeir ætla að standa saman og þeir ætla ekki lengur að láta bjóða sér þau kjör sem þeim hefur verið boðið upp á.“
Ólafur gagnrýndi að þeir sem hafi hvatt félagsmenn til þess að fella samninginn hafi ekki sýnt fram á hvað mætti bæta í samningnum og ekki sýnt fram á neinar lausnir. „Ný samninganefnd er ekki tekin við og ný samninganefnd hlýtur að þurfa að skoða hlutina þegar hún er sest að borðum,“ segir Ásthildur Lóa og bætir við að hún hefði viljað sjá Ólaf virkja grasrótina til aðgerða áður en hann skrifaði uppá 3% launahækkun.
„Það hefði verið mjög flott. Til dæmis svipaðar aðgerðir og við fórum í haustið 2016, að hann hefði ekki bara haldið öllum spilum þétt að sér og aldrei gefið neitt upp þó það væri gengið á eftir því. Það hefði verið áhugavert að sjá hvort við hefðum náð einhverjum árangri ef hann hefði virkjað okkur.“