„Höfuðborgin heitir Reykjavík“

Höfuðborg Íslands heitir Reykjavík.
Höfuðborg Íslands heitir Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, upplýsti í skriflegu svari á Alþingi í gær að opinbert nafn sveitarfélagsins þar sem höfuðborg Íslands er staðsett væri Reykjavíkurborg. Vísaði hann í því sambandi til 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn borgarinnar.

Fyrirspyrjandi var Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sem á yfirstandandi þingi hefur lagt fram 72 fyrirspurnir um hin aðskiljanlegustu mál. Í fyrirspurn um nöfn sveitarfélaga vildi hann auk upplýsinga um heiti höfuðborgar Íslands fá að vita hvert væri opinbert nafn sameinaðs sveitarfélags Grímseyjar, Hríseyjar og Akureyrar annars vegar og sameinaðs sveitarfélags Norðfjarðar, Mjóafjarðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar hins vegar. Í svari ráðherra kom fram að í fyrra tilvikinu væri nafnið Akureyrarkaupstaður og í hinu síðara Fjarðabyggð.

Morgunblaðið spurði þingmanninn að því fyrir nokkrum dögum af hverju hann legði fram fyrirspurn, þegar svarið lægi í augum uppi. „Þessari fyrirspurn var skipt í tvennt í yfirlestri þingsins þannig að samhengið glataðist aðeins. Þetta var hluti af fyrirspurn um skráningu á fæðingarstað barna. Ég er með dæmi um ósamræmi og langar til þess að vita hvort það ósamræmi heldur í svari ráðherra. Annars hefði þetta verið fyrirspurn til upplýsingasviðs bara,“ sagði hann.

Uppfært 22. mars: Árétting sem birtist í Morgunblaðinu vegna fréttarinnar:

Í frétt Morgunblaðsins í gær um heiti höfuðborgarinnar kom ekki fram orðréttur textinn í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar þingmanns Pírata.

Í svari ráðherra segir: „Reykjavík er höfuðborg Íslands, sbr. 2. mgr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga. Heiti sveitarfélagsins er Reykjavíkurborg, sbr. samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 715/2013.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert