Mættu með píkuna

Píkunni, eða fæðingaveginum var komið fyrir framan við inngang hússins …
Píkunni, eða fæðingaveginum var komið fyrir framan við inngang hússins þannig að þeir sem þar áttu leið um fóru um fæðingarveginn. Mikill hugur var í gestum á samstöðufundinum. mbl.is/Eggert

„Okkar slagorð er: Við tökum vel á móti þér,“ segir Steina Þórey Ragnarsdóttir, varaformaður Ljósmæðrafélagsins sem var meðal þátttakenda í samstöðufundi með kjarabaráttu ljósmæðra sem efnt var til fyrir utan húsakynni ríkissáttasemjara nú síðdegis.

Um 60 manns mættu á fundinn, bæði ljósmæður og skjólstæðingar þeirra. „Þarna voru mæður með ungabörn, sem mættu til að sýna okkur stuðning,“ segir Steina og kveður mikinn hug hafa verið í fundargestum sem sumir hverjir mættu með skilti.

„Síðan mættum við með píkuna, eða fæðingarveginn,“ segir hún og var píkunni komið upp framan við inngang hússins. „Þetta var gert til að vekja athygli á okkar störfum. Samninganefnd okkar fór þarna inn um fæðingaveginn og samninganefnd ríkisins átti að gera það líka, en hún var eitthvað sein fyrir  þannig að við vorum búinn að taka hann niður.“

Hvorki hefur gengið né rekið í kjaraviðræðum ljósmæðra frá því að samningar losnuðu í ágúst í fyrra. „Það er komin mikil þreyta í ljósmæður sem vilja alla vegna fá leiðréttingu á launum sínum, enda höfum við dregist aftur úr miðað við menntun og ábyrgð,“ segir Steina.

Námið freistar ekki á meðan þetta eru kjörin

Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra var í dag afhentur listi með undirskriftum 5.800 manns sem hafa skrifað und­ir stuðnings­yf­ir­lýs­ingu við kjara­bar­áttu ljós­mæðra. „Það er mikill hugur meðal almennings. Fólki finnst réttlætanlegt að við hækkum í launum við að bæta þessu við okkur  - að við fáum laun samkvæmt ábyrgð og menntun,“ segir hún.

Steina hefur starfað sem ljósmóðir síðan 2002 og hún segir ekki freista hjúkrunarfræðinga í dag að fara í námið á meðan að launstaðan sé þessi. „Okkar stétt er að eldast og það langar marga sem fara í hjúkrun að verða ljósmæður, þannig að það er leiðinlegt ef að kjörin verði til þess að af því verður ekki.“  

Þá sé Ljósmæðrafélagið líka farið að verða vart við að sumir félagsmanna séu farnir að huga að öðrum störfum.

Mæður ungra barna mættu á samstöðufundinn og sýndu ljósmæðrum stuðning.
Mæður ungra barna mættu á samstöðufundinn og sýndu ljósmæðrum stuðning. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert