Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi í dag, heillaóskir til forseta Kína, Xi Jinping, sem fyrir fáeinum dögum var endurkjörinn sem forseti lands síns.
Forseti áréttar í kveðju sinni mikilvægi þess að þjóðarleiðtogar „stuðli að friði í heiminum og leitist við að veita fólki öryggi og hagsæld, tryggja réttindi þess og einstaklingsfrelsi.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsetaembættinu.
Í bréfinu nefnir forseti jafnframt farsælt samstarf Kínverja og Íslendinga á fjölmörgum sviðum um langt árabil.
Hann talar um að viðskipti landanna hafi aukist jafnt og þétt í kjölfar fríverslunarsamnings sem var undirritaður árið 2013 og samvinna íslenskra og kínverskra fyrirtækja um hitaveitur í kínverskum borgum hafi reynst afar farsæl og stuðlað að bættum loftgæðum í Kína.
Að endingu nefnir forsetinn vaxandi fjölda kínverskra ferðamanna sem heimsækja Ísland ár hvert og vonar að „samstarf þjóðanna verði áfram farsælt og árangursríkt.“