Drengir yngri en 11 ára horfa á klám

Kolbrún segir klámvæðinguna hafa smitast yfir á samskipti barna.
Kolbrún segir klámvæðinguna hafa smitast yfir á samskipti barna. mbl.is/Kristinn

Íslenskir drengir eiga Norðurlandamet í klámáhorfi og meðalaldur íslenskra drengja er 11 ára þegar þeir byrja að horfa á klám. Margir eru því mun yngri en 11 ára þegar þeir sjá klám í fyrsta skipti. Þetta kom fram í erindi Kolbrúnar Hrundar Sigurgeirsdóttur, verkefnastjóra jafnréttismála, á opnum fundi um málefni #metoo sem fer nú fram í Ráðhúsi Reykjavíkur. Kolbrún fjallaði um áhrif klámvæðingar á samskipti kynjanna.

Hún fór yfir það hvernig væri búið að normalísera klám í menningunni okkar. Það væri komin óskýr lína á milli þess sem væri klám og þess sem væru auglýsingar eða tónlistarmyndbönd til dæmis. Það væri orðið eðlilegt að horfa á klám og þar fái ungir drengir fyrstu hugmyndir sínar um kynlíf. Í kláminu væru konur í ítrekað niðurlægðar og karlmaðurinn hefði öll völd.

Kolbrún benti á þá staðreynd að margfalt ofar er leitað að orðinu „porn“ eða klám á google, heldur en Trump eða Rihanna. Þá fær Pornhub, stærsta klámsíða í heimi, meira áhorf en allt efni á Netflix.

Sviptum börn sakleysinu á „núlleinni“

„Þegar drengirnir okkar ýta á orðið „porn“ þá eru þeir að sjá mjög grófa hluti, þeir eru ekki að sjá nakin brjóst eða fólk að stunda samfarir. Þarna sviptum við börn sakleysi á núlleinni,“ sagði Kolbrún. Benti hún jafnramt á að um 90 prósent af öllu því klámi sem er halað niður innheldur ofbeldi gegn konum. „Eiga börnin okkar ekki betri kynfræðslu sinn skilið?“ spurði hún.

Kolbrún benti á að á klámsíðum er flokkurinn „teens“ eða unglingar alltaf einn sá vinsælasti. Þar má sjá barnalegar ungar konur sem virðast vera undir 18 ára, en eru í flestum tilfellum fullorðnar. Hún sagði eftirspurnina eftir börnum í klámi mjög mikla og vísaði til þess að á hverjum degi væri 116 þúsund sinnum leitað af börnum í klámi á netinu.

Kolbrún sagði samfélagið kyngera stúlkur mjög ungar. Hún sýndi hvað gerist þegar orðin „school girl“ eru slegin saman inn í leitarvél google. Þá birtust bara myndir af hálfnöktum stúlkum í skólabúningi í kynferðislegum stellingum. Þegar leitað er að orðunum „school boy“ koma hins vegar myndir af fullklæddum drengjum í skólabúningi á leið í skólann.

Kolbrún sýndi nokkur dæmi þess þar sem hlutir úr klámi voru teknir og þeim troðið inn í menninguna, til dæmis í auglýsingum. Konur að fá mjólk í andlitið, sleikja tómatsósu af pylsu og fleira í þeim dúr. „Konan er nánast alltaf undirskipuð karlinum. Hún er fyrir hann til að nota. Skilaboðin eru alltaf eins og konunni finnist þetta allt í lagi.“

Mikil pressa á að dreifa nektarmyndum

Hún sagði klámvæðinguna einnig vera farna að að smitast yfir á börn og samskipti þeirra á milli, ekki síst í gegnum samfélagsmiðla. Þar væru börn, oftar stúlkur undir mikilli pressu að senda af sér nektarmyndir. Þá sagði hún pressuna á að dreifa myndunum áfram mjög mikla.

Það væri vitað að fjöldi mynda af bæði stelpum og strákum væru í dreifingu á samfélagsmiðlum, en það væri staðreynd að myndir af stelpum lentu oftar inni á heimasíðum og festust þar. Vísaði hún þar til vinsællar síðu þar sem margar myndir af íslenskum stúlkum hafa birst. Á síðunni skiptast menn meðal annars á myndum og biðja um myndir af ákveðnum stelpum. Yngsta stúlkan sem hún vissi að mynd af hefði komið inn á síðuna var 12 ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert