Vill afnema 25 ára regluna

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vill afnema 25 ára regluna við innritun …
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra vill afnema 25 ára regluna við innritun í framhaldsskóla. mbl.is/RAX

„Ég vil afnema hina svo kölluðu 25 ára „reglu“ við innritun nemenda í framhaldsskóla,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra í aðsendri grein sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Framhaldsskólum hefur frá 2012 verið heimilt að forgangsraða umsóknum um skólavist á þann veg að umsækjendur 25 ára og eldri njóta ekki forgangs og er raðað í næstsíðasta flokkinn.

„Margir túlkuðu þetta sem svo að framhaldsskólar landsins séu lokaðir fólki eldra en 25 ára sem hefur áhuga á bóknámi,“ segir ráðherra í grein sinni. Hún bætir þó við að ráðuneytinu hafi ekki borist kvartanir vegna þessa og að líkur á að á það reyni séu hverfandi.

„Sérstaklega í ljósi þess að framlög til framhaldsskólastigsins voru aukin um 1.290 milljónir milli 2017 og 2018 og í ofanálag eru framlög á nemanda hærri í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs.“ Hún sé hins vegar þeirrar skoðunar að einfalda eigi regluverk ef ekki er þörf fyrir það og að þessi aðgerð sé skref í þá átt.

Drög að breytingunni séu nú komin í opið samráð á vef samráðsgáttarinnar og öllum sé frjálst að senda inn umsögn eða ábendingar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert