Umræðu á Alþingi um hvort lækka eigi kosningaaldur til sveitarstjórnarkosninga niður í 16 ár hefur verið frestað til 9. apríl.
Þeir sem studdu frumvarp þess efnis vonuðust til að atkvæðagreiðsla gæti farið fram í dag en ekkert verður af því.
Þó nokkur sjónarmið hafa komið upp í umræðunni um þetta mál, meðal annars það að óráðlegt sé að breyta kosningalöggjöf svo skömmu fyrir kosningar, eins og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á.
Einnig hafa þingmenn, sem mótfallnir eru frumvarpinu, sagt að hætta sé á mistökum þegar svo margir nýir kjósendur séu færðir inn á kjörskrá svo skömmu fyrir kosningar og hafa þeir vísað til umsagnar dómsmálaráðuneytisins um frumvarpið.