Andri Steinn Hilmarsson
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur mikilvægt að þingið hlusti á viðvörunarorð sérfróðra aðila áður en lög um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórnarkosninga verði samþykkt.
Vísar hann bæði til viðvörunarorða dómsmálaráðuneytisins sem birtust í umsögn með frumvarpinu og bókunar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Dómsmálaráðuneytið sagði grundvallarbreytingar sem þessar auka hættuna á að mistök yrðu við framkvæmd kosninganna, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Þriðju umræðu um frumvarpið var frestað í gærkvöldi og er þingið komið í páskafrí. Nokkrir þingmenn sem hafa lýst sig andvíga frumvarpinu voru í gærkvöldi gagnrýndir fyrir málþóf og sakaðir um að hindra að vilji þingsins næði fram að ganga. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði málþófið vonbrigði þar sem skýrt hefði komið fram í annarri umræðu að frumvarpið nyti yfirburðastuðnings. Óli Björn segir að mál sem þetta verði að afgreiða með góðum fyrirvara, minnst ári fyrir kosningar, og í góðri sátt innan þingsins og þjóðfélagsins.