Um hundrað manns tóku þátt í göngunni March for Our Lives Reykjavík, í miðborginni nú klukkan þrjú. Gangan er haldin til stuðnings málstað bandarískra ungmenna sem mótmæla frjálslyndri skotvopnalöggjöf Bandaríkjanna. Hreyfingin March For Our Lives varð til í kjölfar skotárásarinnar í menntaskóla í Flórída í febrúar þar sem sautján féllu.
Búist er við að hundruð þúsunda Bandaríkjamanna komi saman í mótmælagöngum í höfuðborginni Washington, og víðar, síðar í dag. Skipuleggjandi göngunnar hér heima heitir Paula Gould en hún ákvað að efna til samstöðugöngunnar þegar hún heyrði af mótmælunum vestanhafs.
Að sögn Einars Hrafns Árnasonar, varaformanns Sambands íslenskra framhaldsskólanema, heyrði sambandið í skipuleggjendum viðburðarins til að láta vita að þau hafi áhuga á þessu og vilji styðja baráttuna. Því hafi margir framhaldsskólanemar verið meðal göngumanna, auk Bandaríkjamanna sem búsettir eru á Íslandi.
Gengið var frá Arnarhóli að Austurvelli þar sem ræður voru fluttar og sameiginleg yfirlýsing sambanda framhaldsskólanema á Norðurlöndunum lesin upp. Þar lýsa norrænu samböndin yfir fullum stuðningi við baráttu bandarísku nemanna og þau friðsömu mótmæli sem fyrirhuguð eru næstu daga.