Eitt algengasta ráð sem sálfræðingur og geðlæknar sem fást við börn og unglinga gefa, þar sem netnotkun er orðin að vandamáli, er að fólk slökkvi á netbeinum heimilisins yfir nóttina. Sífellt algengara er að net- og samfélagsmiðlanotkun valdi depurð, kvíða eða öðrum vandamálum hjá yngstu kynslóðinni.
Björn Hjálmarsson, barna- og unglingageðlæknir, og Sigrún Þórisdóttir sálfræðingur segja að í miklum meirihluta tilfella sem koma inn á borð til þeirra sé net- og samfélagsmiðlanotkun vandamál.
29,7% stúlkna í tíunda bekk segjast eyða meira en 4 klst. á dag á samfélagsmiðlum en hjá drengjum er hlutfallið töluvert lægra eða 15,2%. Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor í félagsfræði við Columbia University, er einn þeirra fræðimanna sem hefur rannsakað efnið og niðurstöðurnar benda til þess að þessa nýja hegðun hjá ungu fólki tengist því að aukinn kvíði og depurð mælist hjá hópnum.