Hvað yrði um flokkinn þá?

Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson leiða Sabine Leskopf …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson leiða Sabine Leskopf og fleiri konur um Alþingishúsið. Eggert Jóhannesson

Uppreisnin innan þingflokks VG er sprottin af öðrum rótum að þessu sinni en kjörtímabilið 2009-13, að dómi Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, en hann vísar þar til stöðunnar sem upp er kominn hjá VG og á stjórnarheimilinu vegna framkomu þingmannanna Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar. Fyrir liggur að þau styðja ekki stjórn Katrínar Jakobsdóttur í öllum málum vegna óánægju með samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn. 

„Það var hinn íhaldssami armur VG sem var í uppreisn gegn ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Rósa Björk og Andrés Ingi eru á hinn bóginn fulltrúar frjálslynda arms flokksins og áskorunin sem forysta VG stendur frammi fyrir á þessu kjörtímabili er sú hvort henni takist að halda í þetta fólk, ekki bara þingmennina tvo heldur líka almenna flokksmenn sem fylgja svipaðri línu, eða hvort það fái nóg og gangi til liðs við annan flokk, til dæmis Samfylkinguna. Þessi frjálslyndi armur er alþjóðasinnaðri en íhaldssami armurinn og vill almennt sjá meiri breytingar á samfélaginu,“ segir Baldur.

Ekki í uppreisn gegn VG

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Aklureyri, segir stöðu Andrésar Inga og Rósu Bjarkar að því leytinu sérstaka að þau séu ekki í uppreisn gegn flokki sínum og hans gildum heldur séu þau einfaldlega á móti stjórnarsamstarfinu, einkanlega því að vinna með Sjálfstæðisflokknum. „Þetta kom skýrt fram í máli þeirra þegar stjórnin var mynduð og þess vegna þurfti ekki að koma á óvart að þau skyldu ekki greiða atkvæði gegn vantrauststillögunni á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra,“ segir Grétar.

Formenn stjórnarflokkanna funda á Alþingi.
Formenn stjórnarflokkanna funda á Alþingi. Haraldur Jónasson / Hari

Enda þótt Rósa Björk og Andrés Ingi séu ennþá í þingflokki VG þá segir Baldur augljóst, með hliðsjón af því sem á undan er gengið, að ríkisstjórnin geti ekki treyst á stuðning þeirra, allra síst í erfiðum málum, jafnvel þó þau hafi sagst myndu verja stjórnina falli.

„Mann grunar að andrúmsloftið í þingflokknum sé lævi blandið og þingflokksformaðurinn, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur raunar staðfest það opinberlega. Það er óvenjulegt að ekki sé hægt að treysta á hluta hópsins sem velur eftir eigin geðþótta en ekki flokkslínunni og spurning hversu þolinmóður þingflokkurinn verður gagnvart því þegar fram í sækir. Á móti kemur að Vinstri grænir eru ýmsu vanir og forystan hefur áður glímt við villiketti, eins og það er stundum kallað,“ segir Baldur og nefnir í því sambandi Steingrím J. Sigfússon og Svandísi Svavarsdóttur, auk formannsins, Katrínar Jakobsdóttur en þau sátu öll í ríkisstjórn Jóhönnu.

Engin óskastaða

Að dómi Grétars er þetta engin óskastaða fyrir þingflokk VG; betra sé þó að hafa samstarfið við þingmennina tvo hálfa leið en alls ekki. „Það eru ekki brýnir hagsmunir fyrir þingflokkinn að losna við þau enda þótt þetta skapi nudd og einhverja árekstra. Hefð er fyrir því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins haldi þétt saman í stjórnarsamstarfi en VG hefur ekki beinlínis þá sögu úr síðustu ríkisstjórn sem flokkurinn sat í. Það var alveg innistaða fyrir því hjá Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún talaði sem frægt var um kattasmölun. Einmitt þess vegna er flokknum í mun að sýna að hann sé stjórntækur í þessari lotu. Það yrði mjög vont fyrir VG spryngi þetta stjórnarsamstarf í loft upp. Hvað yrði um flokkinn þá?“ 

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka