Mótframboðinu vísað frá vegna formgalla

Guðbrandur Einarsson er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Guðbrandur Einarsson er formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. mbl.is/Hanna

Nokkuð harðar deilur eru innan Verslunarmannafélags Suðurnesja eftir að framboðslista sem settur var saman til höfuðs A-lista stjórnar og trúnaðarráðs var vísað frá af kjörstjórn vegna formgalla á framlögðum gögnum.

Aðstandendur mótframboðsins, B-lista, hafa óskað eftir því að framboðsfrestur verði framlengdur til 4. apríl svo að þeir geti boðið fram, en A-listi stjórnar var sjálfkjörinn á fundi þann 19. mars, í ljósi þess að ekkert gilt framboð hafði borist. Stjórnar- og trúnaðarráðsfundur í félaginu fer fram í kvöld þar sem beiðni B-lista verður tekin fyrir.

Magnús M. Norðdahl lögfræðingur ASÍ sat í kjörstjórn VS og segir hann meðmælendalista sem lagður var fram með framboði B-listans ekki hafa mælt með neinu tilteknu framboði. „Þetta er formgalli og hann var talinn af kjörstjórn það meiriháttar að ekki væri gert eins og oft er gert þegar það eru minniháttar gallar, að þeim væri leyft að laga það,“ segir Magnús.

Auk þessa var einn frambjóðenda ekki kjörgengur, en það segir Magnús hafa verið minniháttar atriði. Þegar allt sé tekið saman sé hafi vankantar á framlögðum gögnum B-lista verið það miklir að ekki hafi verið hægt að líta fram hjá þeim og framboðið því metið ógilt.

B-listinn óánægður með niðurstöðuna

Þetta fella aðstandendur B-lista sig ekki við. Einar Már Atlason er einn þeirra sem hugðust bjóða sig fram til stjórnar og hann segir B-listann vilja fá framboðsfrestinn framlengdan á þeim grundvelli að það séu „engar haldbærar leiðbeiningar um það hvernig framboðsgögnin eigi að líta út.“

Honum þykir sá formgalli sem kjörstjórn taldi meiriháttar augljóslega vera smámál, en efst á blöðunum stóð ekki með hverju þeir sem rituðu nafn sitt á meðmælalistana væru að mæla.

Einar Már Atlason segir stjórn og trúnaðarráð VS hafa komið …
Einar Már Atlason segir stjórn og trúnaðarráð VS hafa komið í veg fyrir framboð B-lista. Ljósmynd/Aðsend

„Það var hausinn á meðmælendalistanum, það kom ekki nógu skýrt fram með hverju fólkið var að mæla. Það var allt og sumt. Hann vísaði ekki í það að fólkið væri að mæla með B-listanum, heldur stóð bara „Meðmælendalisti Verslunarmannafélag Suðurnesja.““

Einar Már segir tvær vikur hafa liðið frá því að framboðinu var skilað inn í góðri trú og þar til fyrsti fundur kjörstjórnar var haldinn, en aðstandendum B-lista hafi ekki verið boðið á þann fund. Þegar þeim hafi loks verið boðið til fundar hafi verið búið að taka ákvörðun um að vísa framboðinu frá.

Með þessum vinnubrögðum segir Einar stjórn og kjörstjórn hafið „skitið í heyið“ og telur hann að B-lista hafi verið vísað frá til þess að A-lista stjórnar og trúnaðarráðs verði tryggt kjörgengi.

Guðbrandur Einarsson er formaður og framkvæmdastjóri VS, en hann er einnig forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ. Hann segir niðurstöðu kjörstjórnar standa þar til annað komi í ljós, en Guðbrandur hefur verið formaður félagsins frá árinu 1998.

„Það var niðurstaða kjörnefndar að B-listinn hafi verið haldinn slíkum annmörkum að ekki var unnt annað en að ógilda hann. Þessir aðilar hafa ekki unað þeirri niðurstöðu og hafa sent erindi til stjórnar og trúnaðarráðs sem verður til umfjöllunar á fundi í kvöld,“ segir Guðbrandur, sem vildi ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Óánægð með núverandi stjórn

Að sögn Einars Más er framboð B-lista sprottið upp úr mikilli óánægju með störf núverandi stjórnar og formanns. Hann segir einnig að það sé að einhverju leyti innblásið af öðrum grasrótarhreyfingum sem hafa boðið fram innan stéttarfélaga upp á síðkastið.

„Ef það væri almennt ánægja með formanninn værum við ekki að fara af stað með þetta,“ segir Einar Már og bætir því við að hann viti til þess að félagar í VS séu að hringja í VR og Vilhjálm Birgisson hjá Verkalýðsfélagi Akraness til að fá úrlausn mála sinna.

Um 1500 félagsmenn eru í Verslunarmannafélagi Suðurnesja og starfa margir …
Um 1500 félagsmenn eru í Verslunarmannafélagi Suðurnesja og starfa margir þeirra á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/RAX

„Ég hugsa að það sé að verða vitundarvakning í landinu. Fólk er að vakna til lífsins og sjá að samfélagið er ekki eins og það vill hafa það. Ég held að yngra fólkið sé sérstaklega að vakna til lífsins með það hvernig samfélagi þau vilja lifa í. Nú er kominn sá tímapunktur að þessi eldri verða að víkja fyrir þeim yngri,“ segir Einar Már.

Hann segist telja að stærstu barátturnar framundan séu fólgnar í því að takast á við verðtrygginguna og hávaxtastefnu bankanna og fyrir því vilji B-listinn beita sér, fái þau að bjóða fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert