Verið er að rífa Nasa-salinn við Thorvaldsensstræti í Reykjavík. Salurinn verður síðan endurbyggður í upprunalegri mynd í samráði við sérfræðinga Minjastofnunar.
Byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar samþykkti að heimila niðurrifið fyrr á árinu, en Nasa-salurinn var friðlýstur af forsætisráðherra í desember 2013. Upphaflega stóð til að rífa bygginguna og var friðlýsingin viðbrögð við háværum mótmælum.
„Salurinn er mjög illa farinn, byggður úr lélegu efni árið 1942, og samkvæmt deiliskipulagi þarf að sökkva honum um það bil tvo metra niður í jörðina til að uppfylla hljóðkröfur,“ sagði Benedikt Ingi Tómasson, verkfræðingur og verkefnastjóri framkvæmda á Landssímareitnum, í samtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar.
Endurbyggingin er hluti af framkvæmdum við nýtt hótel á vegum Icelandair á staðnum. Stefnt er að því að þeim ljúki á næsta ári.
Nasa-salurinn er viðbygging til vesturs við timburhúsið við Thorvaldsensstræti 2, sem byggt var 1878. Í timburhúsinu var Kvennaskóli Þóru Melsteð upphaflega til húsa. Seinna voru þar skrifstofur Sjálfstæðisflokksins um árabil og reisti flokkurinn bakhúsið undir skemmtanahald og samkomur.