Ekki er víst að sakfellingum í nauðgunarmálum muni fjölga eftir að nýtt ákvæði um skilgreiningu á nauðgun í kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga var breytt. Ástæðan er sú að eftir sem áður er sönnunarbyrðin alltaf erfið í þessum málum. Þetta segir Ragnheiður Bragadóttir prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. Hún er ein af þeim sem skilaði inn umsögn um breytingar á lögunum þar sem þetta kemur meðal annars fram.
Skilgreining á nauðgun í lögum var breytt þannig að í henni felist kynmök án samþykkis og var samþykkt á Alþingi nýverið. Í lagaákvæðinu er jafnframt skilgreint hvenær samþykki er fyrir hendi sem er nauðsynlegt til að fullnægja kröfum sem gerðar eru til skýrleika refsiheimilda.
Þessi nýja skilgreining felur þó ekki í sér mikla breytingu á lögunum því að árið 2007 var nauðgunarákvæðið rýmkað mjög og var hugsunin sú að það tæki til þeirra tilvika þar sem kynmök færu fram án samþykkis. Íslenska ákvæðið varð þar með eitt víðtækasta nauðgunarákvæði á Norðurlöndum. Nýja ákvæðið leiðir þó samþykkið betur fram í dagsljósið og hefur fyrst og fremst fornvarnargildi.
„Eitt megingildi þessa ákvæðis er að fyrirbyggja brot. Refsilögin eru þó aðeins einn þáttur af mörgum í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Ákvæðið ásamt forvörnum gæti hugsanlega átt þátt í því að fækka brotum og það er mikilvægast,“ segir Ragnheiður.