„Eintóm leiðindi“ á föstudaginn

Stemningin verður heldur lágstemmd á Dillon á föstudag.
Stemningin verður heldur lágstemmd á Dillon á föstudag. Ljósmynd/Hjalti St.

Boðið verður upp á drep­leiðin­lega dag­skrá á viskí­barn­um Dillon á Lauga­vegi 30 á föstu­dag­inn langa. Sam­kvæmt lög­um um helgi­dagafrið er skemmt­un bönnuð þenn­an dag og ákváðu rekstr­araðilar Dillon því að „bjóða upp á leiðindi“.

Hjalti St. Kristjáns­son, rekstr­ar­stjóri Dillon, seg­ir að eng­inn dans né skemmt­un verði um­bor­in á Dillon á föstu­dag­inn.

„Okk­ur langaði að hafa ein­hverja dag­skrá þenn­an dag og þá verður hún bara að vera leiðin­leg. Það er bannað að að standa fyr­ir skemmt­un­um,“ seg­ir Hjalti.

Á Face­book vegna viðburðar­ins kem­ur fram að leiðin­leg til­boð verði á barn­um; bjór og ódýrt tequila á 937 kr. og tekið er fram að staður­inn á enga skipti­mynt. Hægt verði að spila leiðin­leg spil og ýmis kristi­leg tónlist verður spiluð all­an dag­inn.

„Einnig mun­um við sýna kristi­leg­ar mynd­ir, fólki til ang­urs og leiðinda,“ seg­ir Hjalti.

Mark­mið lag­anna að tryggja frið, næði og hvíld

Í lög­um um helgi­dagafrið kem­ur fram að eft­ir­far­andi starf­semi er óheim­il: „Skemmt­an­ir, svo sem dans­leik­ir eða einka­sam­kvæmi á op­in­ber­um veit­inga­stöðum eða á öðrum stöðum sem al­menn­ing­ur hef­ur aðgang að. Hið sama gild­ir um op­in­ber­ar sýn­ing­ar og skemmt­an­ir þar sem happ­drætti, bingó eða önn­ur svipuð spil fara fram.“

Mark­mið lag­anna er sagt til að vernda helgi­hald og til að tryggja frið, næði, hvíld og afþrey­ingu al­menn­ings á helgi­dög­um þjóðkirkj­unn­ar inn­an þeirra marka er grein­ir í lög­un­um. 

Hörku­tón­leik­ar á miðnætti

„Við feng­um Erp Ey­vind­ar­son með okk­ur í lið, lögðum höfuðið í bleyti og þetta var niðurstaðan; hafa ofan af fyr­ir fólki án þess að það sé gam­an og án þess að fólk dansi,“ seg­ir Hjalti en Erp­ur mun síðan skemmta fólki á slag­inu tólf þegar blásið verður til skemmti­legra tón­leika.

„Það verður mikið stuð fyr­ir þá sem hafa þolað dag­inn,“ seg­ir Hjalti og bæt­ir við að hann treysti sér ekki til að vera á Dillon all­an föstu­dag­inn sök­um leiðinda.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka