„Mér finnst ástandið alveg skelfilegt. Eins og stígurinn er þarna núna þá labbar fólk út fyrir hann til að forðast leðjuna. Það treður niður jarðveginn við hliðina á og býr til nýja leðjuslóða út um allt. Það breikkar svæðið sem eyðileggst. Þetta eru bara gróðurskemmdir í stórum stíl,“ segir Adolf Ingi Erlingsson um göngustíginn inn í Reykjadal fyrir ofan Hveragerði. Hann tók meðfylgjandi myndir á göngu um svæðið í dag. Stígurinn er mjög illa farinn vegna ágangs göngufólks og er í raun eitt drullusvað á köflum.
„Mér líst ekkert á þetta. Það þarf bara að fara í átak með stíginn til að hann beri þessa umferð fólks. Jarðvegurinn er sérstaklega viðkvæmur núna og akkúrat þá fer fólk út fyrir stíginn, traðkar niður jarðveginn eða sparkar upp.“
Vinsælt er að ganga inn í Reykjadal og baða sig í heitri laug inni í dalnum. Íslendingar jafnt sem erlendir ferðamenn nýta sér þessa náttúruparadís og í raun er stríður straumur fólks um svæðið alla daga.
Sjálfur gengur Adolf reglulega inn í Reykjadal en um sex vikur eru síðan hann fór síðast. „Svæðið hefur verið undir snjó, en nú þegar snjórinn er að fara þá er þetta eitt leðjusvað á köflum,“ segir Adolf. Hann tekur þó fram að stígurinn sé þokkalegur á köflum, þar sem möl hefur verið sett í.
Reykjadalur er ekki friðlýst svæði og er því ekki í umsjá Umhverfisstofnunar. Hákon Ásgeirsson, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir enga beiðni hafa borist um að loka svæðinu og stofnunin hafi því ekki vitneskju um ástand þess. „Ef við erum meðvituð um ástand þá tökum við það til skoðunar, en það hefur enginn farið um þetta svæði á okkar vegum. Við vitum því ekki hvernig ástandið er,“ segir hann.
Landeigendur, sveitarfélag og almenningur geta sent inn erindi, tilkynnt að svæði liggi undir skemmdum og lagt til að því sé lokað. Ekkert slíkt erindi hefur borist vegna Reykjadals nýlega.
Umhverfisstofnun lokaði nýlega tveimur svæðum á Suðurlandi vegna aurbleytu og mikils álags á göngustíga Annars vegar svæði meðfram Fjaðrárgljúfri og hins vegar á Skógaheiði yfir ofan Fosstorfufoss.