„Costco eru einir um að láta neytendur njóta þessarar þróunar,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB).
Í umfjöllun um eldsneytisverð í Morgunblaðinu í dag segir hann almennt fylgni vera á milli lækkunar eldsneytisverðs og styrkingar krónu. Algengt verð olíufélaganna á bensíni í gær var 212,80 krónur og á dísilolíu 206,60 til 206,90 krónur.
„Eldsneytisverð hefur haldist svo gott sem óbreytt hér á landi frá áramótum. En það er þó einn aðili á markaði sem hefur verið að lækka sig að undanförnu og það er Costco,“ segir Runólfur og bendir á að þeir hafi lækkað verð sitt um 5 krónur nýverið. Þannig er verð á bensíni hjá þeim 183,90 krónur og dísilolíu 175,90 krónur.