Hvaða aðilar sem er geta stundað nálastungumeðferðir hér á landi án þess að hafa hlotið til þess viðunandi sérfræðimenntun og án þess að eftirlit sé haft með vinnubrögðum þeirra og aðferðum. Því hvetur Nálastungufélag Íslands fólk til að leita einungis til faglærðra sérfræðinga, að því er fram kemur í tilkynningu.
Embætti landlæknis greindi frá því í gær að ólétt kona hefði leitað til bráðamóttöku Landspítalans nýlega í bráðri lífshættu eftir að hafa undirgengist nálastungumeðferð sem ætlað var að koma í veg fyrir ógleði á meðgöngu.
„Við í Nálastungufélaginu erum öll lærð erlendis frá og með margra ára nám að baki, en svo fara aðrir á helgarnámskeið,“ segir Þórunn Birna Guðmundsdóttir, doktor í austrænni læknisfræði og formaður Nálastungufélagsins, í samtali við mbl.is. Hún segir lækna og sjúkraþjálfara aðeins þurfa að sækja helgarnámskeið og að þegar talað sé um nálastungur sé enginn greinarmunur gerður á þeim og þeim sem hafa háskólamenntun í faginu.
Nýlega lést maður í Noregi af sýkingu eftir nálastungur á hendi. Þá vöruðu dönsk yfirvöld á síðasta ári við áhættu af nálastungum eftir fjögur alvarleg tilfelli það sama ár, þar af var eitt dauðsfall.
„Ég er búin að vinna við þetta í tuttugu ár og hef verið skjálfandi á beinum að bíða eftir því að eitthvað svona gerist. Ég var á fundi í Svíþjóð núna í janúar og þar sögðu félagar mínir frá Norðurlöndunum að bíða róleg, þetta færi bráðum að gerast á Íslandi.“
Þórunn Birna segir að auðvitað geti nálastungulæknar gert læknamistök eins og aðrir en að alvarleg tilfelli frá þeim sem aðeins hafa farið á stutt námskeið séu háværust.
Í dag eru fimm einstaklingar í Nálastungufélagi Íslands en von er á fleirum. „Við vorum að tengjast evrópskum samtökum sem heita ETCMA. Það eru regnhlífarsamtök yfir allri austurlenskri lækningafræði í Evrópu. Þar eru reglugerðir og aðhald og svoleiðis þannig við erum öll með svipaða staðla til þess að halda utan um þetta af því að heilbrigðiskerfið gerir það ekki.“