Samfylkingin er stærsti flokkurinn í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkurinn næst stærsti. Tvö ný framboð, Viðreisn og Miðflokkurinn, fá fulltrúa kjörna. VG og Píratar bæta við sig fylgi, en Framsóknarflokkurinn, sem nú hefur tvo borgarfulltrúa, þurrkast út. Núverandi meirihluti í borgarstjórn heldur velli.
Þetta eru meginniðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Morgunblaðið um fylgi framboða við borgarstjórnarkosningarnar í vor. Könnunin fór fram dagana 21. til 27. mars.
Fylgi Samfylkingarinnar er nærri óbreytt frá kosningunum 2014, en þá vann hún mikinn sigur. Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aukist lítillega miðað við sömu kosningar. Athygli vekur mikill munur á fylgi Samfylkingarinnar annars vegar og Sjálfstæðisflokksins eftir hverfum borgarinnar. Í fimm stórum borgarhlutum er Sjálfstæðisflokkurinn með meira fylgi en Samfylkingin. Fylgið við Sjálfstæðisflokkinn er mest í úthverfunum en við Samfylkinguna í vesturhluta borgarinnar.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og efsti maður á lista Samfylkingarinnar, skýrir uppsveiflu flokksins frá síðustu könnunum með því að skýrir valkostir séu að teiknast upp fyrir kosningarnar. „Sjálfstæðisflokkurinn vill hverfa aftur til gamla tímans og hefur kynnt hugmyndir um þróun borgarinnar sem fólk áttar sig betur og betur á að verði vondar fyrir umferðina, þá sérstaklega þessar stóru stofnbrautir,“ segir hann.
Eyþór Laxdal Arnalds, efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins, bendir einnig á sömu skýru valkosti. Stór hópur borgarbúa vilji breytingar og langstærsti minnihlutaflokkurinn muni því fá góðan stuðning. „Ég skynja það að þeir sem segjast styðja meirihlutaflokkana eru ekki sérstaklega stoltir af verkum þeirra. Ég tel að það muni skipta máli. Fólk velji breytingar, þegar upp er staðið,“ segir hann.