Starfsmönnum í áhöfn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var sagt upp í vikunni. Þetta staðfestir Gunnlaugur Grettisson, forstöðumaður ferjusiglinga hjá Eimskip, í samtali við mbl.is, en greint var fyrst frá uppsögnunum á vefnum Eyjar.net.
„Samningurinn okkar um reksturinn gildir fram að komu nýju ferjunnar, sem á að koma til landsins í september og byrja að sigla í október. Það eru því sex mánuðir nú um mánaðamótin fram að því að ný ferja fari að sigla,“ segir Gunnlaugur og bendir á að óvissa sé þess vegna um áframhaldandi rekstur.
„Í besta falli fyrir okkur hjá Eimskip verður útboð og við höldum áfram með reksturinn, en það ríkir enn algjör óvissa um það. Þetta er því miður nauðsynlegur en eðlilegur verknaður,“ segir hann um uppsagnirnar.
Ríkið á núverandi Vestmannaeyjaferju og smíði nýrrar ferju fer fram á vegum ríkisins. Það er því stjórnvalda að ákveða hver muni reka hina nýju ferju.
„Það hafa verið í gangi viðræður á milli innanríkisráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um að bærinn reki ferjuna. Við að sjálfsögðu segjum að eini eðlilegi hluturinn væri að fara með verkefnið í útboð og skilgreina þá þjónustu sem á að veita, auka við ferðir og hvaðeina sem er. En við vitum ekki hvert þessar viðræður munu leiða.“