Sjö þingmenn Samfylkingarinnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem kveðið er á um að fela umhverfisráðherra að finna leiðir til að banna plastpokanotkun í verslunum og gera innflytjendum og framleiðendum skylt að merkja vörur sem hafa í sér plastagnir.
Í greinargerð með ályktuninni segir að Íslendingum beri að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem láta sig verndun hafsins varða og berjast gegn þeim ógnum sem steðji að lífríki hafsins. Bann við notkun plastpoka í verslunum sé vel til þess fallið að draga úr notkun plasts og vekja athygli á þessum vanda.
Bent er á að plastagnir séu óuppleysanlegar þegar þær séu orðnar 5 mm litlar og brotni því ekki niður í lífverum. Plastagnir sé að finna í ýmsum vörum, til að mynda snyrtivörum, tannkremi og víðar og endi því iðulega í niðurföllum, vöskum og sturtubornum þaðan sem þær eiga greiða leið út í sjó. Þá finnist plastagnir í drykkjarvatni og í sífellt ríkari mæli í fiskum og öðrum sjávardýrum.
Samkvæmt ritgerð Guðfinns Sigurvinssonar um plastmengun í hafi er talið að Íslendingar noti um 70 milljónir einnota plastpoka á ári, en að meðaltali er hver plastpoki notaður í 25 mínútur áður en honum er hent. Þá er gert ráð fyrir að árlega lendi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu.
Í ályktuninni er bent á að stjórnvöld í Bangladess hafi árið 2002 bannað einnota plastpoka í verslunum og Kína hafi bannað framleiðslu og notkun þynnstu plastpokanna árið 2008 ásamt því að banna ókeypis plastpoka. Ítalir og Frakkar hafa einnig bannað notkun plastpoka í verslunum á undanförnum árum og þá sé í skoðun í Frakklandi að banna einnota borðbúnað árið 2020.