Stöðug umferð hefur verið á gönguleiðinni inn í Reykjadal í Ölfusi sem lokað var í gær vegna átroðnings. Ferðalangar hafa sýnt aðgerðinni skilning að sögn sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun.
Greint var frá því á mbl.is að kl 10 í gærmorgun hafi Umhverfisstofnun gripið til skyndilokana á þremur stöðum vegna gróðurskemmda síðustu vikur. Gönguleiðinni inn í Reykjadal í Ölfusi var lokað en þar hefur álag á stíga og umhverfi verið gríðarlegt. Landverðir sinna því hlutverki að vísa ferðalöngum frá.
„Mér skilst á landverði á staðnum að fólk sé að taka þessu vel og sé að hlýða fyrirmælum. Það sýnir þessu skilning,“ segir Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun í samtali við mbl.is. „Það er stöðug umferð þannig að það er ekki vanþörf á því að vera með starfsmann á staðnum.“
Ólafur segir að meirihluti þeirra koma að lokaðri leiðinni séu erlendir ferðamenn. Þá hafi óhlýðni ekki verið vandamál hingað til.
Spurður hvenær leiðin verði opnuð segir hann að daglega sé ástandið metið með það í huga að opna aftur fyrir umferð.
„Það er inngrip inn í almannarétt að takmarka umferð þannig að við erum ekki að gera þetta að gamni okkar. Hvenær leiðin opnar veltur á því hversu snemma vorar. Ef það kemur langur frostakafli með snjókomu hefur það að öllum líkindum áhrif,“ segir Ólafur og bætir við að til greina komi að grípa til vægari aðgerða eins og að setja göngupalla á leiðina.
Samkvæmt upplýsingum frá sundlauginni Laugaskarði í Hveragerði hefur verið merkjanleg fjölgun erlendra sundlaugargesta eftir lokun gönguleiðarinnar inn í Reykjadal.