Ekki hefur gefist færi á að sækja hræ þeirra 29 kinda sem felldar voru í Loðmundarfirði fyrir tæpum 3 vikum. Þetta staðfestir Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðarhrepps, í samtali við mbl.is.
Ákveðið var að Borgarfjarðarhreppur myndi sækja hræin um leið og það væri hægt. Að sögn Jóns er ekki hægt að segja til um það hvenær það verði hægt. „Mér finnst afar litlar líkur á að það verði fyrr en í fyrsta lagi mjög seint í þessum mánuði eða í maí,“ segir Jón.
Hann segir hræin verða sótt um leið og færi gefist. „Þó kóngur vilji róa þá verður veðrið að ráða.“
Kindurnar 29, sem voru felldar í leiðangri á vegum Matvælastofnunar, höfðu verið í lausagöngu í firðinum, án eftirlits og fóðrunar. Var ákvörðunin um aflífun þeirra tekin í samráði við sveitarstjórnir Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs.
Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður hjá Matvælastofu, segir þau hafa gert sér grein fyrir því að það gætu liðið allt að tveir mánuðir þangað til að mögulegt yrði að sækja hræin.
Til þess að fjarlægja hræin þarf að vera fært í fjörðinn fyrir dráttarvél eða gröfu. Þorsteinn segir sjaldnast fært á þessum slóðum fyrir slík tæki fyrr en seint í maí. Ekki séu góðir vegir í Loðmundarfirði heldur um sé um að ræða fjallaslóð sem ekki verði fær fyrr en síðar.
Hann segir ekki hafa komið til greina að bíða með aðgerðirnar þar til færðin batni. „Útigangur á fé eins og þarna var er algjörlega ólöglegur. Ef við hefðum ætlað að bíða einn til tvo mánuði í viðbót [...] ég vildi alla vega ekki bera ábyrgð á því. Ég veit að það er umdeilt en ég taldi þetta rétt. Þetta var gert í samráði við sveitarstjórnirnar í kring,“ segir Þorsteinn.