Helgi Bjarnason
Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hefur samþykkt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem gerir ráð fyrir svokallaðri borgarlínu þótt bærinn hafi áður hafnað því að borgarlínan nái inn á Seltjarnarnes.
Samkvæmt svæðisskipulaginu nær borgarlínan því að sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Seltjarnarness. Um leið og bæjarstjórnin samþykkti skipulagið lagði hún áherslu á að afkastageta og þjónustustig annarrar umferðar minnkaði ekki á kostnað aukins rýmis fyrir almenningssamgöngur.
„Það felst engin breyting í þessu. Borgarlínan er einn af þeim boltum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru með á lofti til skoðunar. Svæðisskipulagið gerir ráð fyrir fyrsta áfanga sem ef til vill verður farið í. Það verður hins vegar ekkert gert nema ríkið komi að málinu og engir samningar hafa verið gerðir um það,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.