Þykir mjög óvenjulegt

Lítill drengur umskorinn.
Lítill drengur umskorinn.

Meiri­hluti þeirra um­sagna sem borist hafa vegna um­deilds umsk­urðarfrum­varps Silju Dagg­ar Gunn­ars­dótt­ur, þing­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins, er frá er­lend­um aðilum; ein­stak­ling­um, stofn­un­um og sam­tök­um. Þykir það mjög óvenju­legt, að sögn Helga Bernód­us­son­ar, skrif­stofu­stjóra Alþing­is. „Það eru ýms­ir sem láta sig þetta varða, aðrir en Íslend­ing­ar,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

Þegar þetta er skrifað hafa alls 90 um­sagn­ir borist vegna frum­varps­ins en 48 þeirra eru frá er­lend­um aðilum.

Frum­varpið fel­ur í sér að umsk­urður barna verði al­mennt bannaður með lög­um að viðlagðri fang­els­is­refs­ingu, í stað þess að bannið nái aðeins til stúlkna eins og nú er raun­in.

Hef­ur frum­varpið vakið mikla at­hygli er­lend­is og fjallað hef­ur verið um það í er­lend­um miðlum. Um miðjan fe­brú­ar var frétt um frum­varpið til að mynda þriðja mest lesna frétt­in á vef frétta­stofu BBC. All­ir geta sent um­sögn vegna frum­varps­ins, en alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd óskaði einnig eft­ir um­sögn frá  yfir 200 stofn­un­um og sam­tök­um hér á landi.

Skipt­ar skoðanir á frum­varp­inu

Um­sagn­irn­ar sem borist hafa eru bæði já­kvæðar og nei­kvæðar og skipt­ir þá engu hvort er horft til er­lendra eða inn­lendra um­sagnaraðila.

Meðal þeirra sem sent hafa inn um­sögn og lýst yfir ánægju með frum­varpið eru er­lend­ir karl­menn sem ólust upp við gyðinga­trú og voru umskorn­ir þegar þeir voru ung­börn. Þeim finnst hafa verið brotið gegn mann­rétt­ind­um þeirra með slíkri aðgerð. Trú­ar­leiðtog­ar gyðinga í Evr­ópu hafa hins veg­ar gagn­rýnt frum­varpið harðlega.

Íslensk­ir lækn­ar, hjúkr­un­ar­fræðing­ar og ljós­mæður styðja frum­varpið og það gera dansk­ir lækn­ar líka, en yfir eitt þúsund dansk­ir lækn­ar sendu um­sögn með und­ir­skrift­um þar sem þeir lýsa yfir ánægju og stuðningi við frum­varpið. Embætti land­lækn­is er hins ein­dregið á móti því að umsk­urður á drengj­um falli und­ir hegn­ing­ar­lög.

Barna­vernd­ar­stofa legg­ur ekki bless­un sína yfir frum­varpið í þeirri mynd sem það er nú, en í um­sögn stofn­un­ar­inn­ar seg­ir að veru­leg hætta sé á því að umsk­urður verði fram­kvæmd­ur í skjóli næt­ur verði hann gerður refsi­verður. Þá leggst bisk­up Íslands einnig gegn frum­varp­inu, sem og Frí­kirkj­an í Reykja­vík.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert