Ferðamannaflæði hefur áhrif á íbúafjölda

Íbúum í á suðaustur horni landsins, í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og …
Íbúum í á suðaustur horni landsins, í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Sveitarfélaginu Hornafirði, hefur fjölgað talsvert síðasta árið. Rax / Ragnar Axelsson

Á síðasta ári fjölgaði íbúum Skaftárhrepps hlutfallslega mest allra sveitarfélaga á landinu eða um 18%. Voru íbúar þar 475 1. janúar árið 2017, en voru orðnir 560 þann 1. janúar á þessu ári samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Skagabyggð, Árneshreppur og Borgarfjarðarhreppur voru hins vegar þau sveitarfélög þar sem íbúum fækkaði hlutfallslega mest milli ára, eða um 7-8%.

Sjá má augljóst samhengi milli fjölgunar íbúa eftir því hvar atvinnuuppbygging hefur verið undanfarin ár sem virðist að miklu leyti haldast í hendur við hvar mikil uppbygging í ferðaþjónustu hefur verið. Íbúafækkun virðist hins vegar mest þar sem mikil umferð ferðamanna er takmörkuð og jafnvel árstíðabundin.

Fækkar í fámennustu sveitarfélögunum en fjölgar í millistórum

Þá er algengara að fækkun verði í sveitarfélögum með færri en 300 íbúa en að íbúum þar fjölgi. Fækkaði íbúum í 9 af 17 sveitarfélögum með þann íbúafjölda. Á meðan er mun algengara að íbúum fjölgi í sveitarfélögum sem eru nokkru stærri, með íbúa á bilinu 300 og upp í 2.000.  Fækkaði íbúum í 5 af 35 sveitarfélögum í þeim flokki.

Hlutfallslega var fjölgunin mest í Skaftárhreppi (18%) þar sem nú búa 560 manns, Skeiða- og Gnúpverjahreppi (16%) þar sem búa 690 manns, Skútustaðahreppi (16%) þar sem búa 493, Mýrdalshreppi (13%) þar sem búa 633 og Helgafellssveit (12%) þar sem búa 58 manns.

Árneshreppur er áfram fámennasta sveitarfélag landsins, en þar eru skráðir …
Árneshreppur er áfram fámennasta sveitarfélag landsins, en þar eru skráðir 43 íbúar. mbl.is/Sunna

Hins vegar fækkaði hlutfallslega mest í Skagabyggð (-8%) þar sem nú búa 93, Borgarfjarðarhreppi (-7%) þar sem búa 108, Árneshreppi (-7%) þar sem búa 43, Fljótsdalshreppi (-6%) þar sem búa 76 og Húnavatnshreppi (-6%) þar sem búa 383 manns. Það heldur því áfram að fækka í fámennasta hrepp landsins, Árneshreppi, en íbúum þar fækkaði um 3 milli ára.

Sætaskipti um næst fámennasta sveitarfélag landsins

Sætaskipti urðu um næst fámennasta sveitarfélag landsins. Í byrjun árs 2017 höfðu 52 búið í Helgafellssveit, 58 í Skorradalshreppi  og 59 í Tjörneshreppi. Í byrjun þessa árs var íbúafjöldi Helgafellssveitar hins vegar kominn upp í 58 á meðan íbúar Tjörneshreppar voru einnig komnir niður í 58 og í Skorradalshreppi voru íbúar orðnir 56.

Ferðamannastraumurinn hefur áhrif

Mikil uppbygging hefur verið í Skaftárhreppi og Skútustaðahreppi undanfarið, meðal annars vegna aukins ferðamannastraums. Þá hefur Mýrdalshreppur heldur ekki farið varhluta af mikilli fjölgun ferðamanna. Fjölgun í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er hins vegar að miklu leyti til komin vegna skráningar starfsmanna við Búrfellsvirkjun 2 sem áformað er að ljúki á þessu ári.

Aftur á móti eru Skagabyggð, Borgarfjarðarhreppur, Árneshreppur og Fljótsdalshreppur allir nokkuð úr alfaraleið ferðamanna auk þess að vera fámenn sveitarfélög. Því telur fækkun um nokkra íbúa hlutfallslega mikið hjá þeim.

Íbúum Reykjanesbæjar fjölgaði um 9%

Þegar horft er til beinnar fjölgunar en ekki hlutfallslegrar fjölgunar þá fjölgaði íbúum Reykjavíkur mest. Voru þeir 126.041 í byrjun árs og hafði fjölgað um 2.795 milli ára, eða um 2%. Næst mest fjölgun var í Reykjanesbæ, en þar fjölgaði íbúum um 1.455 og voru þeir í ársbyrjun 17.805 talsins. Nemur það 9% fjölgun milli ára.

Í Reykjanesbæ fjölgaði íbúum um 9% á síðasta ári.
Í Reykjanesbæ fjölgaði íbúum um 9% á síðasta ári. mbl.is/Sigurður Bogi

Í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ fjölgaði íbúum á bilinu 700-800 á árinu, flestum í Mosfellsbæ. Þar var einnig hlutfallslega mesta fjölgunin, en íbúum fjölgaði um 8% og voru í ársbyrjun 10.556.

Utan suðvesturs hornsins fjölgaði íbúum mest í Árborg. Voru þeir 8.995 í árslok og fjölgaði þeim um 6% á árinu, eða um 524 samtals. Á Akureyri fjölgaði um 299 íbúa á árinu, eða 2% og var heildarfjöldi Akureyringa 18.787 í ársbyrjun. Í Norðurþingi var fjöldi íbúa 3.234 í ársbyrjun og hafði þeim fjölgað um 271, eða 9% milli ára.

Skoða má tölur um fólksfjölda nánar á vef Hagstofunnar og þá er hægt að skoða mannfjöldaþróun á myndrænan hátt á vefsíðu Byggðarstofnunar.

Mikil uppbygging hefur verið í Mosfellsbæ undanfarið. Íbúum þar fjölgaði …
Mikil uppbygging hefur verið í Mosfellsbæ undanfarið. Íbúum þar fjölgaði hlutfallslega mest á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert