Einstaklingum á biðlista eftir dvöl í hjúkrunarrými hefur á síðustu fimm árum fjölgað úr 180 í 368. Hjúkrunarrýmum hefur einungis fjölgað um 90 síðan árið 2010 eða um 3,5% en á sama tíma hefur einstaklingum 80 ára og eldri fjölgað um tæp 11%.
Þetta kemur fram í nýrri frétt og skýrslu um eftirfylgni á vefsíðu Ríkisendurskoðunar en þar eru jafnframt birt gögn um eftirfylgni Ríkisendurskoðunar með rekstri og starfsemi hjúkrunarheimila á umliðnum árum.
Fram kemur að bið eftir hjúkrunarrými hefur lengst síðastliðin ár og er að mati Ríkisendurskoðunar ástæða til að skoða þróun biðlista og biðtíma undanfarinna ára og setja markmið og mælikvarða um málaflokkinn. „Hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að hafa þetta í huga við þá stefnumótunarvinnu sem er að fara í gang um heilbrigðismál í ráðuneytinu,“ segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.