„Ég var að leggja bílnum fyrir utan þegar ég heyrði sprengingar. Svo byrjaði eldurinn að stíga upp,“ segir Árni Björn Kristjánsson, stöðvarstjóri Crossfit XY, í Miðhrauni 2 sem er við hliðina á húsnæðinu þar sem eldur kviknaði í morgun.
Hann telur að sprengingarnar hafi verið þrjár. „Þessar sprengingar voru nokkuð háværar. Eftir það kom reykjarmökkur og eldtungur stigu upp.“
Árni Björn sá starfsfólk fyrirtækisins Marels sem starfar í húsnæðinu sem brennur hlaupa út á bílaplan. Einhverjir færðu bílana sína en aðrir gátu það ekki þar sem þeir skyldu bíllyklana sína eftir inni í húsinu.
Fyrst um sinn eftir eldsvoðann var líkamsræktarstöðin opin þar sem reykurinn barst ekki þangað en núna hefur henni verið lokað vegna breyttrar vindáttar.
„Það er búið að rýma húsið. Það verður engin starfsemi það sem eftir er dagsins,“ segir Rúnar Kristmannsson, rekstararstjóri Crossfit XY.
Hann segir að starfsmenn hafi verið í húsinu og aðeins örfáir á æfingum þegar ákveðið var að rýma húsið en hálftími var í næsta hóptíma.
„Það er allt á kafi í reyk. Mökkurinn er kominn alveg yfir okkar byggingu,“ bætir Rúnar við.
Eldsvoðinn í morgun varð eftir að hóptíma var lokið á stöðinni og frekar rólegt að gera.
„Það voru nokkrir aðilar þarna þegar þetta fór allt í gang,“ segir Rúnar.