Lýsa yfir vonbrigðum með fjármálaáætlunina

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Stjórn VR gerir alvarlegar athugsemdir …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Stjórn VR gerir alvarlegar athugsemdir við nýútgefna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Stjórn VR gerir alvarlegar athugsemdir við nýútgefna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.  Í ályktun sem stjórnin sendi frá sér í dag kemur fram að  stjórnin lýsi miklum vonbrigðum með fjármálaáætlunina  sem fylgt hafi verið úr hlaði með „þeim öfugmælum að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að samfélagslegur stöðugleiki og lífsgæði verði treyst til framtíðar“, að því er segir í tilkynningunni.

Ekki sé nefnilega tekið á þeim „grafalvarlega hnút sem kominn er upp í öllum kjaraviðræðum á íslenskum vinnumarkaði vegna ákvörðunar kjararáðs. Hnút sem raskar samfélagslegum stöðugleika og misskiptir lífsgæðum svo gróflega að skömm er að. Hnút sem sýnir þvert á móti að stjórnvöld hafa ekki minnsta áhuga á því að dreifa þeim gæðum sem verða til á því mikla hagvaxtarskeiði sem þau hreykja sér af“.

Segir stjórn VR að þó að finna megi jákvæða punkta í áætluninni vegi það þyngra sem þar vantar. M.a. ríki neyðarástand í húsnæðismálum þjóðarinnar og brýn þörf sé á hækkun barna- og húsnæðisbóta. „Þá má gera ráð fyrir að boðuð hækkun á bensínverði leiði til aukinnar verðbólgu og hækkunar á verðtryggðum húsnæðislánum almennings.“

Stjórn VR leggi líkt og áður áherslu á mikilvægi þess að persónuafsláttur sé hækkaður, frekar en að  tekjuskattsprósentan sé lækkuð. Enda hafi það lítið að segja fyrir þá sem hafa lægstu tekjurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert