Vilja ekki að Bretar fái betri samning

Húsakynni Evrópuþingsins í Strasbourg.
Húsakynni Evrópuþingsins í Strasbourg. AFP

Hópur norskra þingmanna hefur komið því á framfæri við Evrópusambandið að ekki sé ásættanlegt að samið verði við Bretland um fríverslunarsamning eftir að landið yfirgefur sambandið sem er hagstæðari en samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Noregur er aðili að ásamt Íslandi og Liechtenstein auk allra ríkja Evrópusambandsins.

Þetta hefur breska dagblaðið Daily Telegraph eftir þýska Evrópuþingmanninum Elmar Brok sem er formaður utanríkismálanefndar Evrópuþingsins og náinn bandamaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Brok segir norsku þingmennina hafa sagt að ekki væri ásættanlegt að Bretland fengi sambærilegan eða betri samning en Noregur án þess að taka á sig sömu skyldur.

Þar er einkum vísað til þess að Noregur, Ísland og Liechtenstein þurfa að innleiða talsverðan hluta af löggjöf Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn og greiða fjármuni í uppbyggingarsjóð á vegum sambandsins. Brok segir Norðmennina hafa varað Evrópusambandið við þessu á fundi með norskri þingmannanefnd.

Stefna Noregs eða ekki stefna Noregs?

Hins vegar er haft eftir talsmanni norskra stjórnvalda í fréttinni að þau myndu alls ekki leggjast gegn samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins sem væri betri en EES-samningurinn. Því hafi enda ítrekað verið vísað á bug. Það væri þvert á móti Norðmönnum í hag að það tækist að semja um brotthvarf Breta úr sambandinu á skipulagðan hátt.

Talsmaðurinn leggur ennfremur áherslu á að sjónarmið norsku þingmannanna á fundinum með Brok endurspegluðu ekki stefnu stjórnvalda í Noregi. Hins vegar kemur fram í fréttinni að breska dagblaðið Guardian hafi áður greint frá því að norskir embættismenn hafi ítrekað varað Evrópusambandið við því að veita Bretum ekki of góðan samning.

Ennfremur segir að fyrr á þessu ári hafi embættismaður Evrópusambandsins greint Daily Telegraph frá því að norsk stjórnvöld fylgdust mjög grannt með útgöngu Bretlands úr sambandinu til þess að tryggja að það veitti ekki Bretum hagstæðari samning.

Rifjað er upp að norskir andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið beiti sér fyrir því að Noregur segi skilið við EES-samninginn og semji í staðinn um fríverslunarsamning við sambandið. Norski Miðflokkurinn sé þar í broddi fylkingar en flokkurinn hafi tvöfaldað fylgi sitt í þingkosningum á síðasta ári.

Hafa áhyggjur af EES-samningnum

Þá segir að fregnir hermi að þetta hafi ýtt undir áhyggjur ráðamanna í Noregi um að þeir gætu þurft að endursemja um tengsl landsins við Evrópusambandið, og jafnvel segja skilið við EES-samninginn, takist Bretum að ná betri viðskiptasamningi við sambandið.

Haft er eftir Brok að Bretland geti ekki notið sömu kosta og ríki sem uppfylli kröfur Evrópusambandsins meðal annars um greiðslur í sjóði sambandsins. Hins vegar hefur verið greint frá því að Evrópusambandið hafi þegar boðið Bretum tollfrjálsan aðgang fyrir breskar vörur inn á markað sambandsins sem eru betri kjör en bjóðast með EES-samningnum.

Evrópusambandið samdi ennfremur nýverið um fríverslunarsamning við Kanada sem kveður á um 100% tollfrelsi fyrir kanadískar sjávarafurðir inn á markað sambandsins eins og mbl.is hefur fjallað um sem eru mun betri kjör en kveðið er á um í EES-samningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert