Svartvatn verði notað í landgræðslu

Viljayfirlýsingin var undirrituð úti á Mývatni.
Viljayfirlýsingin var undirrituð úti á Mývatni.

Ráðist verður í úrbætur á fráveitumálum við Mývatn í sumar en fram fram er komin áhugaverð lausn sem byggir á aðskilnaði fráveitukerfa í byggingum á svæðinu og að nýta svokallað svartvatn til uppgræðslu auðna á Hólasandi. Með þeirri lausn er tekið fyrir losun næringarefna í fráveitu að mestu leyti, en þau nýtt sem áburður við landgræðslu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viljayfirlýsingu um samstarf við úrbætur í fráveitumálum við Mývatn sem undirrituð var í morgun af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, ásamt fulltrúum Skútustaðahrepps og fulltrúa Landgræðslu ríkisins. Viljayfirlýsingin var undirrituð úti á ísnum á Mývatni.

Hagsmunir náttúrunnar hafðir í fyrirrúmi

Leitað hefur verið lausna um hríð á fráveitumálum við Mývatn, ekki síst vegna áhyggna vísindamanna um að næringarefni úr fráveitu geti haft neikvæð áhrif á lífríki vatnsins. Lausnin sem nú verður unnið að er að miklu leyti nýmæli á Íslandi, en hún felst í aðskilnaði svartvatns og grávatns, þar sem svartvatni er safnað og ekið burt og það síðan nýtt fjarri vatninu til landgræðslu, að segir í frétt á vef Stjórnarráðs Íslands.

„Þetta er góð lausn fyrir Mývatn og fyrir umhverfið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Ávinningurinn við þetta er þríþættur; álag á lífríki Mývatns minnkar, næringarefnin eru nýtt sem áburður til landgræðslu og þessi lausn er hagkvæmari en þær lausnir sem hafa lengst af verið á borðinu. Hér er varúðarreglan virkjuð og hagsmunir náttúrunnar hafðir í fyrirrúmi.“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að með viljayfirlýsingunni sé staðfestur vilji ríkisstjórarninnar til að koma þessu mikilvæga verkefni með heimamönnum.

„Ein helsta forsenda fyrir aðkomu ríkisins að málinu er hið einstaka lífríki Mývatns- og Laxársvæðisins sem nýtur verndar að lögum en Mývatn var fyrsta svæðið sem Ísland tilkynnti til alþjóðlegrar skrár um verndun votlendis á grundvelli Ramsar-sáttmálans. Það er sérstakt gleðiefni hversu vel heimamenn hafa haldið á þessu verkefni í samstarfi alla aðila. Þannig hefur verið fundin hagkvæm og umhverfisvæn lausn með aðkomu íslenskra sérfræðinga á fjölmörgum sviðum, allt frá verkfræði til landgræðslu,“ segir Bjarni.

Vöktun á Mývatni einnig efld

Umræða hefur verið um ástand lífríkis í Mývatni um nokkra hríð, meðal annars á Alþingi. Vísindamenn hafa lýst yfir áhyggjum að innstreymi næringarefna af mannavöldum kunni að ýta undir bakteríublóma og fleiri neikvæða þætti í vistkerfi vatnsins. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið lét gera úttekt á fráveitumálum við Mývatn 2017 og í kjölfar hennar gerði Skútustaðahreppur umbótaáætlun, þar sem fram kom að sveitarfélagið taldi sig ekki geta hrint henni í framkvæmd án aðstoðar ríkisvaldsins, þar sem kröfur væru strangar og umbætur dýrar fyrir fámennt sveitarfélag.

Í desember 2017 ákvað ríkisstjórnin að ganga til viðræðna við Skútustaðahrepp um mögulega aðkomu ríkisins að fráveitumálum. Skútustaðahreppur setti svo fram nýja umbótaáætlun, sem var samþykkt af heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra í mars. Í kjölfar þess var gengið frá samkomulagi um aðkomu ríkisvaldsins að umbótaáætluninni, verkaskiptingu aðila og fjármögnun. Það samkomulag var formfest í viljayfirlýsingunni sem ritað var undir í dag.

Samhliða umbótum í fráveitu verður vöktun á Mývatni efld, einkum á innstreymi næringarefna í vatnið. Efld vöktun af því tagi er þegar hafin undir stjórn Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, en hún verður frekar útfærð á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert